Ný þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins 2008
Fjármálaráðuneytið, fréttatilkynning nr. 15/2008
Fjármálaráðuneytið hefur birt nýja þjóðhagsspá fyrir árin 2008 til 2010 auk framreikninga til ársins 2013.
Nýja þjóðhagsspá er að finna í skýrslu fjármálaráðuneytisins Þjóðarbúskapurinn - haustskýrsla 2008 þar sem birtar eru greinargerðir um framvindu og horfur helstu þátta efnahagsmála á árunum 2008-2010 á grundvelli nýrrar þjóðhagsspár fjármálaráðuneytisins.
Helstu niðurstöður eru eftirfarandi:
- Eftir áralanga kröftuga uppsveiflu með aukinni verðbólgu og viðskiptahalla er aðlögun að jafnvægi hafin í þjóðarbúinu. Áætlað er að hagvöxtur hafi verið 4,9% árið 2007 á grundvelli áframhaldandi vaxtar innlendrar eftirspurnar og viðsnúnings í utanríkisviðskiptum.
- Árið 2008 hafa erfiðleikar og viðsjár á alþjóðlegum fjármálamörkuðum í auknum
mæli sett mark sitt á þróun efnahagsmála hér á landi eins og annarsstaðar. Þrátt fyrir vaxandi samdrátt í mörgum eftirspurnarliðum sýna hagtölur aukinn hagvöxt á fyrri helmingi ársins. Þannig hefur fjármunamyndun atvinnuvega haldið áfram að dragast saman á árinu og verulega dregið úr íbúðabyggingum. Vöxtur einkaneyslu stöðvaðist í kjölfar kaupmáttarrýrnunar og tók að dragast saman af þunga frá vormánuðum. Þrátt fyrir að þjóðarútgjöld lækki um 3,1% er áætlað að aukinn álútflutningur og samdráttur í innflutningi skili landsmönnum 1,7% hagvexti í ár. - Frekari samdráttur í einkaneyslu og minni aukning í útflutningi leiðir til þess að landsframleiðsla dregst saman um 1,6% árið 2009. Árið 2010 er gert ráð fyrir að vöxtur einkaneyslu verði lítillega jákvæður og að samdráttarskeið fjármunamyndunar taki enda þannig að hagvöxtur verði 1,1% það ár.
- Áætlað er að viðskiptahalli hafi verið 15,4% af landsframleiðslu árið 2007 og er reiknað með að hann verði 16,8% af landsframleiðslu árið 2008 vegna aukins halla á þáttatekjujöfnuði. Vegna minni halla á vöru- og þjónustujöfnuði er spáð að viðskiptahallinn nemi 8,2% árið 2009 og 6,0% árið 2010.
- Áætlað er að spenna á vinnumarkaði hafi náð hámarki og að meira jafnvægi einkenni markaðinn á næstu árum. Reiknað er með að atvinnuleysi verði að meðaltali 1,2% af vinnuafli árið 2008 en því er spáð að það aukist og að það verði 2,7% árið 2009 en 3,8% af vinnuafli árið 2010. Framleiðsluspenna í hagkerfinu hefur verið gríðarmikil undanfarin ár en hún er tekin að minnka. Spáð er að framleiðsluslaki nemi 0,8% og 1,2% af framleiðslugetu árin 2009 og 2010 þegar ástand umframeftirspurnar á vinnumarkaði verður ekki lengur til staðar.
- Vegna gengislækkunar krónunnar á árinu ásamt viðvarandi spennu á vinnumarkaði er áætlað að verðbólga aukist í 11,5% að meðaltali á þessu ári. Spáð er að verðbólga dragist hratt saman á næsta ári og verði um 5,7% að meðaltali. Reiknað er með að 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands náist á seinni hluta 2010 og að verðbólga verði að meðaltali 2,8% það ár.
- Því er spáð að ríkissjóður verði rekinn með jafnvægi í ár en að halli myndist árið 2009 sem nemur 5% af landsframleiðslu. Gert er ráð fyrir að hallinn dragist saman árið 2010, þegar innlend eftirspurn tekur að aukast á nýjan leik og verði 3,5% af landsframleiðslu það ár. Ríkissjóður gegnir mikilvægu hlutverki í fjármálastjórn hins opinbera með því að hafa sveiflujafnandi áhrif á efnahagsframvinduna. Vegna sterkrar stöðu ríkissjóðs er miðað við að tekjuhalli næstu ára verði fjármagnaður með innistæðum hans hjá Seðlabanka Íslands og að hallinn hafi því ekki áhrif til að auka skuldir ríkissjóðs.
- Í framreikningum fyrir árin 2011-2013 er reiknað með hóflegum hagvexti á tímabilinu, eða um 2,4% á ári að meðaltali; að verðbólga verði nálægt verðbólgumarkmiði, að viðskiptahallinn nálgist 4,8% af landsframleiðslu og að tekjuafkoma ríkissjóðs verði í jafnvægi í lok tímabilsins.
- Óvissuþættir í þjóðhagsspánni varða ástand á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og sveiflur í gengi krónunnar. Nefna má að íslenskt efnahagslíf hefur sýnt getu til að ráða við stórar slíkar sveiflur. Þá er óvissa tengd frekari stóriðjuframkvæmdum og endurnýjun kjarasamninga á næsta ári.
Þjóðarbúskapurinn - haustskýrsla 2008
Nánari upplýsingar um spána veitir Þorsteinn Þorgeirsson, skrifstofustjóri efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins; sími 545 9178 eða 862 0017.
Reykjavík, 1. október 2008