Framkvæmd samræmdra könnunarprófa í 10. bekk
Í nýjum grunnskólalögum nr. 91/2008, sem tóku gildi sl. sumar, er kveðið á um breytingar á samræmdum prófum í grunnskólum. Ýmsar spurningar hafa vaknað vegna framkvæmdar nýrra laga og því vill menntamálaráðuneyti taka fram eftirfarandi:
- Í 39. gr. segir að nemendur í fyrri hluta 10. bekkjar skuli þreyta samræmd könnunarpróf í íslensku, ensku og stærðfræði.
- Þessi nýju próf teljast ekki vera lokapróf í grunnskóla líkt og þau samræmdu próf sem hingað til hafa tíðkast í 10. bekk. Megintilgangur samræmdra könnunarprófa er að veita skólum, nemendum og foreldrum upplýsingar um stöðu nemenda og skapa færi á að styðja við nám þeirra í viðkomandi greinum áður en grunnskólanámi lýkur. Samræmd könnunarpróf eiga ekki að liggja til grundvallar inntöku nemenda í framhaldsskóla eins og verið hefur undanfarin ár.
- Þar sem ný lög tóku ekki gildi fyrr en í sumar reyndist ekki gerlegt að skipuleggja samræmd könnunarpróf er halda mætti nú í haust. Þess vegna mæla lögin fyrir um að könnunarpróf í íslensku, ensku og stærðfræði skuli haldin að vori 2009 fyrir þá nemendur sem nú eru á síðasta ári í grunnskóla. Grunnskólanemendur sem áður hafa þreytt samræmd lokapróf skulu þreyta samræmd könnunarpróf í íslensku, ensku og stærðfræði.
- Frá og með skólaárinu 2009-2010 verða samræmd könnunarpróf haldin að hausti.
- Prófin verða sambærileg þeim sem tíðkast hafa í 4. og 7. bekk. Hvorki verða haldin sjúkrapróf né skipaðir trúnaðarmenn eins og tíðkaðist við framkvæmd samræmdra lokaprófa.
- Vakin er athygli á að samræmd könnunarpróf í 10. bekk eru einungis ætluð nemendum í viðkomandi árgangi.
Loks vill ráðuneytið benda á að skv. 26. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla um val í námi eiga grunnskólanemendur rétt á að stunda nám í einstökum námsgreinum á framhaldsskólastigi samhliða námi í grunnskóla. Það er þó háð því að þeir hafi sýnt til þess fullnægjandi færni að
mati skólastjóra viðkomandi grunnskóla, sem veitir nemendum heimild til slíks náms samkvæmt viðmiðum sem sett verða í aðalnámskrá grunnskóla. Afnám samræmdra lokaprófa á því ekki á nokkurn hátt að torvelda grunnskólanemendum að leggja stund á nám á framhaldsskólastigi.