Könnun á umfangi ofbeldis gegn konum
Félags- og tryggingamálaráðuneytið stendur nú fyrir könnun á ofbeldi gegn konum.
Á næstu vikum fer fram símakönnun á ofbeldi karla gegn konum. Könnunin sem nær til 3.000 kvenna á aldrinum 18-80 ára um allt land er liður í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar gegn ofbeldi. Rannsóknarsetur um barna- og fjölskylduvernd við Háskóla Íslands annast framkvæmdina fyrir félags- og tryggingamálaráðuneytið.
Vitundarvakning um ofbeldi á heimilum og kynferðislegt ofbeldi hefur leitt til þess að stjórnvöld telja nauðsynlegt að efla hjálparaðgerðir sem nýtast konum sem hafa orðið fyrir ofbeldi og börnum þeirra. Til þess að setja fram markvissar áætlanir um aðstoð og stuðningsaðgerðir ætla stjórnvöld nú að kanna umfang ofbeldisins og afla vitneskju um þá þjónustu sem er í boði.
Í kjölfar kvennaráðstefnunnar í Peking hvöttu Sameinuðu þjóðirnar til þess að gerð yrði fjölþjóðakönnun á ofbeldi gegn konum. Slík könnun hefur nú þegar verið gerð í tíu löndum. Á grundvelli þessara rannsókna og annarra og aukinnar þekkingar setja stöðugt fleiri lönd fram aðgerðaáætlanir um aðstoð við konur sem hafa verið þolendur ofbeldis.
Hér á landi verður á næstu vikum gerð símakönnun á ofbeldi karla gegn konum og nær til 3.000 kvenna á aldrinum 18-80 ára á öllu landinu. Úrtakið er valið á tilviljunarkenndan hátt úr þjóðskrá. Rannsóknin verður unnin af Rannsóknasetri í barna- og fjölskylduvernd og framkvæmd af Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands fyrir félags- og tryggingamálaráðuneytið.
Rannsóknin er liður í aðgerðaáætlun vegna ofbeldis á heimilum og kynferðislegs ofbeldis sem samþykkt var í ríkisstjórn í september 2006. Félags- og tryggingamálaráðuneytið ber ábyrgð á þessum þætti aðgerðaáætlunarinnar. Með þessari rannsókn vilja stjórnvöld leggja sitt af mörkum til að vinna gegn ofbeldi á heimilum og kynferðislegu ofbeldi gegn konum.