Hoppa yfir valmynd
2. október 2008 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Samkeppnishæfni og skilvirkni íslenska skattkerfisins

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 2. október 2008 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Í skýrslu nefndar sem fjármálaráðherra skipaði til að kanna samkeppni og skilvirkni íslenska skattkerfisins kemur að það sé einfalt og gagnsætt í samanburði við skattkerfi annarra landa.

Sá eiginleiki stuðli að skilvirkni þess, jafnframt því að draga úr skattsvikum. Einfaldleiki og gagnsæi í formi almennra skattareglna í heimi þar sem flutningur á fjármagni, atvinnustarfsemi og vinnuafli milli landa eru einnig mikilvægir þættir séð frá sjónarhóli samkeppni. Einföld álagning tekjuskatts með fremur lágum meðalskatti, lág launatengd gjöld og lágt tekjuskatthlutfall á hagnað fyrirtækja eru allt þættir sem stuðla að bættri samkeppnisstöðu íslenska skattkerfisins.

Í skýrslunni segir að meðalskatthlutfall á tekjur einstaklinga sé almennt lægra á Íslandi en að jafnaði innan OECD. Þegar tekið er tillit til greiðslu barnabóta verða meðalskatthlutföllin sýnu lægst á Íslandi. Jaðarskattur á meðaltekjur og lágar tekjur er hins vegar tiltölulega hár hér á landi samanborið við nágrannalöndin án þess þó að hafa letjandi áhrif á vinnuframlag einstaklinga. Þá er samanlögð skattlagning launa og launatengd gjöld (tryggingagjöld) lágt hlutfall hér á landi miðað við önnur OECD ríki og því verða neikvæð áhrif skattkerfisins á vinnumarkaðinn tiltölulega lítil.

Jafnframt kemur fram í skýrslunni að samanlögð áhrif tekjuskatts á hagnað fyrirtækja og fjármagnstekjuskatts á arðgreiðslur séu lítil hér á landi samanborið við OECD-ríkin. Sú staðreyndi virki hvetjandi fyrir fjárfestingar í atvinnurekstri og auki á samkeppni og skilvirkni íslenska skattkerfisins í alþjóðlegum samanburði. Í stuttu máli verður því ekki annað sagt en að íslensku skattkerfi sé gefin ágætiseinkunn í umræddri skýrslu.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta