Stöndum vörð um heimilin í landinu
Félags- og tryggingamálaráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, kallaði eftir samheldni þjóðarinnar í þeim efnahagslegu erfiðleikum sem nú er við að etja um allan heim í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi í kvöld. Hún sagði það mikilvægasta verkefni ríkisstjórnarinnar, sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins um þessar mundir að verja stöðu heimila og fyrirtækja í landinu. Til þess þurfi efla velferðarkerfið, vinna gegn atvinnuleysi og ná stöðugleika í efnahagslífið.
„Nú reynir á samfélagslega innviði og samfélagslegan styrk eins og ávallt þegar kreppir að. Það er við aðstæður sem þessar sem grunngildi jafnaðarmanna verða haldreipi og bjargráð þeirra samfélaga sem best vegnar. Því miður hættir mönnum til að gleyma þessum mikilvægu gildum þegar allt leikur í lyndi.“
Jóhanna kallaði eftir endurskoðun á leikreglum fjármálakerfisins og breyttu hugarfari stjórnenda fjármálastofnana sem með ofurkjörum sínum hafi slitið sig úr siðferðilegu sambandi við þjóðina. Hún kallaði eftir samstöðu allra lánadrottna um að auðvelda skuldugum heimilum lausn sinna mála.
„Nú verða allir að standa saman og sýna ábyrgð og samhjálp. Ég hef þegar falið Íbúðalánasjóði að skoða hvort hægt sé, að minnsta kosti tímabundið, að rýmka þær heimildir sem sjóðurinn hefur yfir að ráða fyrir fólk í greiðsluerfiðleikum.“
Jóhanna minnti á að þrátt fyrir allt væru innviðir samfélagsins sterkir; ríkissjóður skuldlaus, lífeyrissjóðakerfið öflugt og þjóðin væri rík af náttúruauðlindum og mannauð. Á styrkleikum þjóðarinnar yrði að byggja í glímunni við þær erfiðu efnahagsaðstæður sem ríkja.
„Þessi ríkisstjórn var ekki síst mynduð til að styrkja velferðarkerfið. Þar höfum við þegar stigið mörg og markviss skref og er mér til efs að nokkurn tímann hafi jafn mikið verið gert á sviði velferðarmála eins og á því tæpa eina og hálfa ári sem þessi ríkisstjórn hefur starfað. Að því munum við nú búa á meðan við erum að ganga í gegnum þessa efnahagserfiðleika, en aðgerðirnar hafa ekki síst snúið að því að bæta stöðu lífeyrisþega, barna og ungmenna og barnafjölskyldna almennt.“
„Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að mörg ykkar horfast nú í augu við mikla fjárhagslega erfiðleika. Samhent getur íslenska þjóðin undir forystu þessarar ríkisstjórnar og með sveitarfélögum og aðilum vinnumarkaðarins siglt örugg í gegnum þann ólgusjó sem við erum í ásamt ótal öðrum þjóðum um allan heim.
Stoðir okkar eru styrkar og sóknarfærin mörg. Þetta eru tímar samstöðu - samstöðu um grundvallargildi velferðar og jafnaðarstefnu, jafnvægis milli nýsköpunar og kröftugrar uppbyggingar annars vegar og velferðar fólksins í landinu hins vegar.“
Ræða félags- og tryggingamálaráðherra við umræður um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi