Hrútadagurinn 2008 á Raufarhöfn
Hrútadagurinn 2008 á Raufarhöfn var haldinn 4. október. Fulltrúi ráðuneytisins Níels Árni Lund flutti ávarp og kveðjur frá ráðherra og ráðuneytinu og opnaði samkomuna.
Bændur frá Langanesi, úr Þistilfirði og Öxarfirði sýndu þar og voru með til sölu um 250 lambhrúta á opnum markaði. Kaupendur komu víðs vegar að af landinu og keyptu góða gripi til undaneldis. Í lok markaðarins voru 4 hrútar boðnir upp af fulltrúa ráðuneytisins og var sá dýrasti sleginn á 105 þúsund krónur. Hrúturinn var frá Gunnari Guðmundssyni og Kristínu Hildi Árnadóttur, bændum í Sveinungsvík. Fjöldi bænda og annarra áhugamanna um íslenska sauðfjárrækt mættu á sölusýninguna þar sem auk hrútaverslunar voru til sölu ýmis konar handverksgripir unnir í héraði. Þá var Íslandsmeistaramót í kjötsúpugerð sem er fastur liður á deginum og að þessu sinni hlutu titilinn þær systur Alda og Anna Lára Jónsdætur sem m.a. annast öldrunarþjónustuna á Kópaskeri. Um kvöldið var haldið hagyrðingamót í félagsheimilinu Hnitbjörgum, sem tókst með afbrigðum vel og ljóst að þeir norðanmenn eiga fjöldan allan af snöllum vísnasmiðum.
Hrútadagurinn, þessu opni hrútamarkaður er sífellt að festa sig betur og betur í sessi, og má fullyrða að þar gefist sauðfjárræktendum mikilvægt tækifæri á að velja sér úrvals kynbótagripi til að bæta bústofn sinn.