Hoppa yfir valmynd
9. október 2008 Matvælaráðuneytið

Ársfundur Norðvestur-Atlantshafs fiskveiðistofnunarinnar (NAFO) 22. - 23. september 2008

Ársfundur Norðvestur-Atlantshafs fiskveiðistofnunarinnar (NAFO) 22. - 23. september 2008.

Dagana 22.-23. september fór fram ársfundur Norðvestur-Atlantshafs fiskveiðistofnunarinnar (NAFO) í Vigo á Spáni. Á fundinum er ákveðið heildaraflamark og stjórn veiða á NAFO-svæðinu sem er hafsvæðið vestan og sunnan Hvarfs á Grænlandi.

Rækja

Ástand rækjustofna á Flæmingjagrunni og á Miklabanka er gott, einkum þó á Miklabanka. Samþykkt var óbreytt stjórnun veiða á Flæmingjagrunni fyrir árið 2009 og að fjöldi sóknardaga yrði sá sami og á árinu 2008. Íslensk stjórnvöld hafa mótmælt sóknarstýringu á þessu svæði frá því að hún var tekin upp árið 1996 vegna efasemda um að hægt væri að að stjórna veiðunum með sóknarstýringu og lagt til að veiðunum væri stjórnað með aflamarki. Ísland ítrekaði mótmæli sín og mun áfram stjórna veiðum einhliða með aflamarki sem ákveðið verður síðar. Aflamark fyrir rækju á Miklabanka var hins vegar hækkað úr 25 þús. tonnum í 30 þús. tonn og er það miðað við útreikninga líffræðinga vísindanefndar NAFO. Við þetta eykst rækjukvóti Íslands á Miklabanka í 334 tonn.

Reglur um botnfiskveiðar til verndar viðkvæmum vistkerfum hafsins

Á aukaaðalfundi NAFO fyrr á árinu voru samþykktar stjórnunarráðstafanir um botnfiskveiðar. Stjórnunarráðstöfunum er ætlað að styðja við frekari verndun viðkvæmra vistkerfa á úthafinu á samningssvæði NAFO og taka þær gildi 1. janúar 2009. Þá er með stjórnunarráðstöfunum komið að fullu til móts við ályktun allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna (UNGA 61/105) sem tekur til verndunar viðkvæmra vistkerfa hafsins á úthafinu. Í framhaldi voru botnfiskveiðar sl. 20 ára á samningssvæði NAFO kortlagðar. Í ágúst síðastliðnum hittist vinnuhópur á vegum NAFO þar sem sæti áttu vísindamenn og embættismenn aðildarríkjanna. Á þeim fundi var unnið að frekari útfærslu reglna til samræmis við ofangreindar stjórnunarráðstafanir. Þar sem botnfiskveiðar hafa ekki áður átt sér stað er einungis heimilt að stunda tilraunaveiðar sem fylgja ákveðnum skilyrðum s.s. um eftirlit og töku sýna. Á grunni þeirra upplýsinga sem fást við slíkar veiðar, á svæðum þar sem botnfiskveiðar hafa ekki verið stundaðar áður, er ákveðið hvort botnfiskveiðar á nýju veiðisvæði verða leyfðar eða bannaðar. Á meðan á tilraunaveiðum stendur skulu fánaríki beita skyndilokun ef rekist skip þeirra á viðkvæmt vistkerfi.

Þá taka aðildarríkin á sig þá skyldu að skip þeirra stöðvi veiðar tafarlaust komi í ljós að mikið magn af t.d kóral komi í botnveiðarfæri á svæðum sem hafa verið kortlögð. Samþykktir voru ákveðnir þröskuldar (t.d. magn af kóral) sem viðmið um hvenær beri að stöðva veiðar. Það er síðan hlutverk vísindanefndar NAFO að skera úr um hvort um viðkvæmt vistkerfi sé að ræða. Reglurnar eru til bráðabirgða fyrir árið 2009 meðan vísindanefnd NAFO vinnur áfram að úttekt á viðkvæmum vistkerfum á svæðinu og gert er ráð fyrir að reglurnar verði endurskoðaðar þegar niðurstöður vísindanefndarinnar liggja fyrir.

Á NAFO svæðinu eru í gildi bann við botnfiskveiðum á fimm svæðum þar sem neðansjávartinda er að finna auk þess sem stórt kóralsvæði nýtur verndunar.

Hafnríkjaeftirlit

Á fundinum var einnig rætt um hafnríkjaeftirlit á NAFO svæðinu. Samþykkt var tillaga að slíku eftirliti sem byggt er upp á sama hátt og hafnríkjaeftirlit á svæði Norðaustur-Atlantshafs

fiskveiðinefndarinnar (NEAFC). Reynsla á NEAFC svæðinu hefur gefið góða raun. Hafnríkjaeftirlitið tekur til landana erlendra skipa á frosnum fiskafurðum af samningssvæði NAFO og einnig allra flutninga á slíkum afurðum milli skipa. Tekur eftirlitið þegar gildi.

Formaður íslensku sendinefndarinnar var Hrefna Karlsdóttir sérfræðingur í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu. Auk fulltrúa sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins voru í sendinefnd Íslands á fundinum fulltrúar Fiskistofu, Landhelgisgæslunnar og hagsmunaaðila í sjávarútvegi.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta