Hoppa yfir valmynd
9. október 2008 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Griðarstaður barna og ungmenna

Vill menntamálaráðuneyti hvetja skólastjórnendur og þá sem stýra íþrótta-, æskulýðs- og tómstundastarfi fyrir börn og ungmenni til að skoða hvaða úrræði eru fyrir hendi til að takast á við núverandi aðstæður á sem uppbyggilegastan hátt.
born
born

Þau gildi sem liggja til grundvallar starfi í skólum og öðru starfi barna og ungmenna eru umburðarlyndi og kærleikur og að stuðlað sé að velferð þeirra í víðum skilningi. Á tímum óvissu í þjóðfélaginu er mikilvægt að skólinn, íþrótta-, æskulýðs- og tómstundastarf sé griðarstaður barna og ungmenna og að jákvæðum brag sé haldið þar á lofti í enn ríkari mæli.

Þá er nú brýnt sem aldrei fyrr, að þeir sem starfa með börnum og ungmennum hlúi að þeim og stuðli að vellíðan þeirra og öryggi. Slíkt mætti gera með því að gefa svigrúm í skóla-, íþrótta- og æskulýðsstarfi, til dæmis með fleiri samverustundum og að opna leiðir fyrir börn og ungmenni til að tjá sig við starfsfólk eftir því sem þörf er á.

Vill menntamálaráðuneyti hvetja skólastjórnendur og þá sem stýra íþrótta-, æskulýðs- og tómstundastarfi fyrir börn og ungmenni til að skoða hvaða úrræði eru fyrir hendi til að takast á við núverandi aðstæður á sem uppbyggilegastan hátt. Víða er sérfræðiþjónusta og þekking til staðar innan skóla, íþrótta- og æskulýðsfélaga, í sveitarfélaginu og í nærsamfélaginu sem hægt er að nýta. Virk samskipti skóla, heimila og nærsamfélags eru sérstaklega mikilvæg nú.

Menntamálaráðuneyti mun á næstu dögum beita sér fyrir samráði við alla aðila sem vinna að velferð barna og unglinga með það að markmiði að veita þeim viðeigandi stuðning. Einnig verður hugað að því hvernig hægt er að styðja við starfsfólk í þeirra krefjandi starfi.

Íslenskt menntakerfi er sterkt og gegnir lykilhlutverki í að skapa auðlegð velmenntaðra einstaklinga sem móta munu íslenska framtíð. Rannsóknir hafa ennfremur sýnt að þátttaka ungs fólks í íþrótta-, æskulýðs- og tómstundastarfi hefur mikið forvarna- og uppeldislegt gildi og skapar aukna festu í lífi barna og unglinga. Menntun og annað starf með börnum og ungmennum er sá grundvöllur sem stendur þrátt fyrir tímabundna erfiðleika í efnahagslífi og nauðsynlegt að slíkt starf blómstri nú sem endranær



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta