Ný lög um heimildir til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., nr. 125/2008.
Hinn 6. október sl. voru samþykkt á Alþingi lög nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. Með lögunum eru stjórnvöldum fengnar nauðsynlegar heimildir til að grípa til aðgerða í því skyni að takmarka tjón eða hættu á tjóni á fjármálamarkaði. Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða skulu ákvæði laganna endurskoðuð fyrir 1. janúar 2010.
Í I. kafla laga nr. 125/2008 er fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs heimilað að reiða fram fjármagn til að stofna nýtt fjármálafyrirtæki eða yfirtaka fjármálafyrirtæki eða þrotabú þess í heild eða að hluta, við sérstakar og mjög óvenjulegar aðstæður á fjármálamarkaði skv. 2. mgr. 1. gr. Fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs er jafnframt heimilað að leggja sparisjóði til fjárhæð sem nemur allt að 20% af bókfærðu eigin fé hans, við þær sérstöku aðstæður sem greinir í 1. gr.
Með ákvæðum II. kafla laga nr. 125/2008 er lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, breytt. Samkvæmt nýrri 100. gr. a er Fjármálaeftirlitinu heimilt að grípa inn í starfsemi fjármálafyrirtækja með víðtækum hætti vegna sérstakra aðstæðna eða atvika, í því skyni að takmarka tjón eða hættu á tjóni á fjármálamarkaði. Meðal þess sem Fjármálaeftirlitinu er heimilt að gera á grundvelli 100. gr. a er að boða til hluthafafundar eða fundar stofnfjáreigenda án tillits til samþykkta félags og ákvæða hlutafélagalaga; að taka yfir vald hluthafafundar eða fundar stofnfjáreigenda í því skyni að taka ákvarðanir um nauðsynlegar aðgerðir (s.s. takmarkað ákvörðunarvald stjórnar, vikið stjórn frá í heild eða að hluta, tekið yfir eignir, réttindi og skyldur fjármálafyrirtækis í heild eða að hluta eða ráðstafað slíku fyrirtæki í heild eða að hluta meðal annars með samruna þess við annað fyrirtæki); að skipa skilanefnd skv. 4. mgr. samhliða því sem ákvörðun er tekin um að víkja stjórn fjármálafyrirtækis frá; að takmarka eða banna ráðstöfun fjármálafyrirtækis á fjármunum sínum og eignum; að krefjast þess að fjármálafyrirtæki sæki um greiðslustöðvun eða leiti heimildar til nauðasamninga eða að það verði tekið til gjaldþrotaskipta o.fl. Ákvæði 100. gr. a gildir óháð því hvort fjármálafyrirtæki hafi óskað eftir eða fengið heimild til greiðslustöðvunar, nauðasamninga eða óskað eftir eða verið úrskurðað gjaldþrota. Með lögum nr. 125/2008 var 103. gr. laga um fjármálafyrirtæki jafnframt breytt þannig að kröfur vegna innstæðna njóta rétthæðar skv. 1. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. við skipti á búi fjármálafyrirtækis.
Með ákvæðum III. kafla laga nr. 125/2008 er 8. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998, breytt. Telji Fjármálaeftirlitið þörf á að grípa til sérstakra ráðstafana gagnvart öðrum eftirlitsskyldum aðilum en fjármálafyrirtækjum, í því skyni að takmarka tjón eða hættu á tjóni á fjármálamarkaði, gilda ákvæði 100. gr. a um heimildir þess til inngrips í starfsemina.
Með ákvæðum IV. kafla laga nr. 125/2008 er lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, nr. 98/1999, breytt. M.a. er Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta nú heimilt að endurgreiða andvirði innstæðu, verðbréfa eða reiðufjár í íslenskum krónum, óháð því hvort það hefur í öndverðu verið í annarri mynt.
Loks er í V. kafla laga nr. 125/2008 lögfestar breytingar á lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998, sem heimila Íbúðalánasjóði að kaupa eða endurfjármagna skuldabréf fjármálafyrirtækja sem tryggð eru með veði í íbúðarhúsnæði.
Lög nr. 125/2008 öðluðust þegar gildi við birtingu, þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 8. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað.
Hérna má nálgast lögin, bæði á íslensku og ensku:
Lög um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl.