Nýi Landsbanki Íslands hf. tekur til starfa
Fjármálaráðuneytið, fréttatilkynning nr. 16/2008
Í dag tók til starfa nýr banki í eigu ríkissjóðs sem tekur við hluta af starfsemi Landsbanka Íslands hf.
Fjármálaeftirlitið (FME) nýtti sér heimild á grundvelli laga sem sett voru á Alþingi síðastliðinn mánudag til þess að skipa skilanefnd fyrir Landsbanka Íslands hf. og tók hún til starfa þann 7.október s.l. Sama dag stofnaði Ríkissjóður Íslands nýtt hlutafélag, Nýja Landsbanka Íslands hf.
Á stjórnarfundi FME þann 9. október var tekin ákvörðun um að Nýi Landsbanki Íslands hf. tæki yfir hluta af eignum, réttindum og skyldum Landsbankans hf. og heyrir innlendi hluti af starfsemi bankans frá þeim tíma því undir nýtt fyrirtæki og nýja stjórn.
Um er að ræða rekstur allra útibúa á landinu, útlánastarfsemi og aðra hefðbundna bankastarfsemi. Áætlað er að heildarfjöldi starfsmanna hins nýja banka verði í kringum 1000 manns sem allir munu koma úr röðum núverandi starfsmanna Landsbankans.
Búið er að ráða nýjan bankastjóra og framkvæmdastjórn bankans. Elín Sigfúsdóttur hefur tekið við starfi bankastjóra, en hún starfaði sem framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Landsbankans. Framkvæmdastjórar eru: Anna Bjarney Sigurðardóttir á útibúasviði, Árni Þór Þorbjörnsson á fyrirtækjasviði, Jón Þorsteinn Oddleifsson á fjármálasviði, Stefán Héðinn Stefánssson á eignastýringarsviði,Guðmundur Guðmundsson á rekstrarsviði, Gunnar Viðar á lögfræðisviði og Atli Atlason á starfsmannasviði. Yfir áhættustýringu bankans verður Þórir Örn Ingólfsson.
Framkvæmdastjórn bankans mun kynna nýtt skipurit og umfang þeirrar starfsemi sem um ræðir við starfsfólk bankans í dag og næstu daga.
Engin breyting verður á hefðbundnum viðskiptum milli bankans og viðskiptavina hans. Útibú bankans munu starfa óbreytt og engin breyting verður á opnunartíma þeirra. Þjónusta við einstaklinga og fyrirtæki verður sú sama og notkun greiðslukorta verður með hefðbundnum hætti. Sömu inn- og útlánsreikningar verða í hinum nýja banka eins og áður var. Netbanki og hraðbankar starfa í óbreyttri mynd.
Reykjavík, 9. október 2008