Nýtt samræmt þjónustu- og vefsvæði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði
Félags- og tryggingamálaráðuneytið hefur sett á fót samræmt þjónustunet vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði til að auðvelda fólki aðgang að upplýsingum, nýtt vefsvæði, grænt símanúmer, fyrirspurnalínu og netspjall.
Á þjónustunetinu er að finna vefsvæði með yfirliti yfir stofnanir og samtök sem veitt geta mikilvægar upplýsingar, leiðbeiningar og ráðgjöf. Upplýsingasviðin hafa verið sett upp í sex flokka: Atvinnumál, húsnæðismál, greiðsluerfiðleikar, fjármál, útlendingar á Íslandi og börn og fjölskyldur.
- Þjónustuvefinn má finna á slóðinni felagsmalaraduneyti.is/upplysingar
Grænt símanúmer ráðuneytisins hefur einnig verið tekið í notkun: 800 1190. Símtöl í númerið eru endurgjaldslaus og þaðan má fá beint samband við stofnanir sem veita upplýsingar vegna húsnæðislána, greiðsluerfiðleika, Tryggingasjóðs innstæðueigenda og atvinnuleitar eða atvinnuleysis.
Fyrirspurnalína hefur verið virkjuð og getur fólk sent félags- og tryggingamálaráðuneytinu fyrirspurnir um hvaðeina sem viðkemur þessum sérstöku aðstæðum á fjármálamarkaði.
„Ég vil þakka fyrir framlag fjölmargra nú síðustu daga. Mörg samtök og einstaklingar með mikla reynslu hafa boðið fram þjónustu sína og það er dýrmætt að finna samtakamáttinn meðal þjóðarinnar. Við munum nú næstu daga greina hvar álagið er mest og bregðast við með aukinni þjónustu dag frá degi. Fyrir liggur að þegar hefur orðið vart við aukið álag á Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna og ég hef ákveðið að styrkja starfsemi þeirrar þjónustu strax. Viðskiptaráðuneytið hefur sett upp sérstakt upplýsingasvæði um réttindi í tryggingasjóði innstæðueigenda og fjárfesta og heilbrigðisráðuneytið hefur unnið að eflingu þjónustu heilbrigðisstarfsmanna en afar mikilvægt er að slík þjónusta sé nú mjög aðgengileg. Síðast en ekki síst vil ég nefna að Íbúðalánasjóður mun efla upplýsingagjöf og ráðgjöf og ég bendi sérstaklega á vef sjóðsins þar sem þegar hafa verið sett fram svör við algengum spurningum. Ég hvet almenning til þess að nýta sér þessa þjónustu og leita svara og ráðgjafar um leið og spurningar vakna. Við erum til þjónustu reiðubúin“, sagði Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra þegar hið nýja vefsvæði var opnað.
Bent skal á að Vinnueftirlitið mun bjóða upp á fræðsluefni til vinnustaða og starfsmanna og stutt námskeið um sálfélagslegt vinnuumhverfi og jafnframt huga sérstaklega að upplýsingum til erlendra starfsmanna. Þá hefur Fjölmenningarsetur sett fram upplýsingar um stöðu mála á erlendum tungumálum og Barnaverndarstofa hefur ásamt samstarfsaðilum komið á framfæri gátlista um það sem hafa skal í huga gagnvart börnum og ungmennum við þær aðstæður sem nú eru uppi.