Til skólastjórnenda frá menntamálaráðherra
Þau gildi sem liggja til grundvallar starfi í skólum eru umburðarlyndi og kærleikur og að skólinn stuðli að velferð nemenda í víðum skilningi.
Ágætu skólastjórnendur
Þau gildi sem liggja til grundvallar starfi í skólum eru umburðarlyndi og kærleikur og að skólinn stuðli að velferð nemenda í víðum skilningi. Á tímum óvissu í þjóðfélaginu er mikilvægt að skólinn sé griðarstaður nemenda og að jákvæðum skólabrag sé haldið á lofti.
Ég vil beina því til skólastjórnenda á öllum skólastigum að þeir ræði við sitt starfsfólk og hvetji það til að hlúa að nemendum. Slíkt mætti gera með því að gefa svigrúm í skólastarfi til að stuðla að vellíðan, til dæmis með fleiri samverustundum og að opna leiðir fyrir nemendur til að tjá sig við starfsfólk skóla.
Hvet ég skólastjórnendur til að skoða hvaða úrræði eru fyrir hendi innan skólans til að takast á við núverandi aðstæður á sem uppbyggilegastan hátt. Víða er sérfræðiþjónusta og þekking til staðar innan skóla, í sveitarfélaginu og í nærsamfélaginu sem hægt er að nýta. Virk samskipti skóla og heimila eru sérstaklega mikilvæg nú.
Menntamálaráðuneyti mun á næstu dögum beita sér fyrir samráði við alla aðila sem vinna að velferð barna og unglinga með það að markmiði að veita þeim viðeigandi stuðning. Einnig verður hugað að því hvernig hægt er að styðja við starfsfólk skóla í þeirra krefjandi starfi.
Skólinn er hornsteinn samfélagsins. Íslenskt menntakerfi er sterkt og gegnir lykilhlutverki í að skapa auðlegð velmenntaðra einstaklinga sem móta munu íslenska framtíð. Góð menntun er sá grundvöllur sem stendur þrátt fyrir tímabundna erfiðleika í efnahagslífi og hana skulum við áfram efla.
Bið ég ykkur að koma þessum skilaboðum á framfæri í ykkar skólum.
Með góðri kveðju, Þorgerður Katrín