Hoppa yfir valmynd
16. október 2008 Utanríkisráðuneytið

Ísland í kjöri allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna 17. október 2008

Kosningar til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna fyrir tímabilið 2009-2010 fara fram á morgun föstudaginn 17. október. Í fyrsta sinn er Ísland í framboði, en ríki Norðurlanda hafa skipst á að bjóða fram norrænt framboð undanfarna áratugi. Ákvörðun um framboð Íslands var tekin fyrir tíu árum.

Öll 192 aðildarríki Sameinuðu þjóðanna hafa atkvæðisrétt og er vægi atkvæða jafnt, eitt atkvæði á eitt ríki. Atkvæðagreiðslan er leynileg.

Ísland er í framboði úr hópi Vestur-Evrópu og annarra ríkja sem svo er nefndur, sem jafnan á tvo fulltrúa í ráðinu, og keppir við Austurríki og Tyrkland í kosningunni á morgun.

Hvert framboðsríki þarf að fá stuðning að lágmarki 2/3 hluta þeirra sem greiða atkvæði til að ná kjöri. Þetta á við hvort sem samkeppni er um sætin eða ekki. Greiði öll aðildarríkin 192 atkvæði þarf því að lágmarki stuðning 128 þeirra til að ná kjöri.

Að hálfu annarra ríkjahópa eru Mexíkó í framboði til sætis Rómönsku Ameríku, Úganda til sætis Afríkuhópsins og Íran og Japan keppa um eitt laust sæti Asíuhópsins.

Kjörtímabil ríkjanna sem kjörin verða á morgun hefst 1. janúar 2009 og lýkur 31. desember 2010.

Fimmtán ríki skipa öryggisráðið á hverjum tíma og ár hvert er kosið um fimm laus sæti til tveggja ára í senn. Allsherjarþingið kýs tíu ríki en fimm ríki eiga fast sæti í ráðinu Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Kína og Rússland og fer hvert þeirra með neitunarvald.

Ríkin fimm með fast sæti hafa öll neitunarvald í ráðinu, ólíkt þeim sem allsherjarþingið kýs til ráðsins.

Búast má við niðurstöðu kosninganna síðdegis á morgun að íslenskum tíma. Hægt verður að fylgjast með útsendingu frá Allsherjarþinginu, þar sem kosningin fer fram á vefnum: http://un.org/webcast/



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta