Hoppa yfir valmynd
23. október 2008 Matvælaráðuneytið

Nr. 30/2008 - Aðalfundur Landssambands smábátaeigenda

05
05

Fréttatilkynning frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti

Nr. 30/2008

Ræða ráðherra á aðalfundi Landssambands smábátaeigenda

Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fjallaði meðal annars um stöðu sjávarútvegsins í yfirstandandi efnahagsvanda og kröfur um að auka þorskkvóta í ræðu sinni á aðalfundi Landssambands smábátaeigenda sem haldinn var í Turninum í Kópavogi í dag.

 

Hvað aukinn þorskkvóta snertir sagði Einar Kristinn það skyldu sína sem ábyrgs sjávarútvegsráðherra að gaumgæfa stöðuna í þaula með tilliti til núverandi efnahagsástands. Ekki verði þó flanað að neinu og í hremmingum undanfarinna vikna hafi ekki gefist tóm til að skoða þetta með fullnægjandi hætti. Niðurstaða liggi því ekki fyrir en til grundvallar verði haft að leiðarljósi: „Við erum ábyrg auðlindanýtingarþjóð. Við njótum góðs orðspors af þeim ástæðum á veigamestu mörkuðum okkar og megum ekki undir neinum kringumstæðum fórna þeim ávinningi. Og gleymum því ekki að þrátt fyrir að ímynd okkar sem þjóðar hafi beðið hnekki, njótum við verðskuldaðs álits sem fiskveiðiþjóð. Það hefur ekki breyst og mun gagnast okkur.  Ákvarðanir okkar verða því - án nokkurs afsláttar - að vera í samræmi við það sem við segjum hér á landi og erlendis; við byggjum á sjálfbærri nýtingu auðlinda þar sem ekki er gengið á fiskistofnana, en þeim haldið við og þeir efldir.“ 

 

Um efnahagsmálin sagði ráðherra meðal annars að ljóst væri að við fall fjármálageirans ykist vægi sjávarútvegs í íslenska þjóðarbúskapnum frá því sem verið hafi á allra síðustu árum. Nú þurfi að tryggja eðlileg gjaldeyrisviðskipti og koma á stöðugu gengi svo fyrirtækin geti unnið snurðulaust og sjávarútvegurinn verið sá burðarás sem við blasi á Íslandi á komandi vikum og mánuðum. „Mín skilaboð til ykkar og annarra í sjávarútvegi eru þess vegna mjög skýr. Menn eiga ekki að leggja árar í bát við þessar aðstæður. Þótt staðan á efnahagsreikningum sé slæm um þessar mundir vegna hins lága gengis, er það aðeins um stundarsakir. Gengi krónunnar er langt undir jafnvægisgengi og mun styrkjast þegar frá líður. Við það lækka erlendar skuldir sjávarútvegsins eins og annarra atvinnugreina, mælt í innlendri mynt. Það er því rangt að leggja mat á stöðu einstakra fyrirtækja út frá skammvinnum stundarveruleika, einfaldlega vegna þess að við getum ekki vænst annars en þess að krónan eigi eftir að styrkjast þannig að hún leiti jafnvægis á allt öðrum og sterkari stað en nú er. Við eigum því sameiginlega að reyna að róa út úr þessum brimskafli og komast á sléttari sjó. Sjávarútvegurinn hefur allar forsendur til þess. Afurðaverð hefur almennt verið gott og samkeppnisstaða íslensks sjávarútvegs er góð, ekki síst vegna þess orðspors sem hann hefur notið.“

 

Einar Kristinn gat þess einnig að þeir sem stæðu fyrir útgerð hlytu að eiga rétt á því að stjórnmálamenn sköpuðu þeim vinnufrið til framtíðar en litu ekki á það sem eðlilegt hlutverk sitt að svipta fiskveiðiréttindum til og frá eins og taflmönnum á skákborði. Næg væri óvissan samt í sjávarútveginum þótt pólitískri óvissu væri ekki bætt ofan í kaupið.

 

Þá fjallaði ráðherra um línuívilnun og byggðakvóta og sagði meðal annars að undanfarin misseri hefði verið unnið af vandvirkni að því að greiða úr hnökrum sem komið hafi upp við úthlutun byggðakvótans.

 

Ræða ráðherra

 Sjá myndir

 

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu

23. október 2008



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta