Yfirlýsing frá forsætisráðherrum Norðurlanda 27. október 2008
Á fundi norrænu forsætisráherranna í dag var rætt um alþjóðlegu fjármálakreppuna og sérstaklega þá alvarlegu stöðu sem upp er komin á Íslandi. Ráðherrarnir voru sammála um að setja á laggirnar norræna nefnd embættismanna til að fylgja eftir framkvæmd þeirrar áætlunar sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur gert til að koma á stöðugleika í íslensku efnahagslífi, auk þess að fjalla um og samræma aðgerðir til að Ísland komist út úr þeim erfiðleikum sem það er í.
Forsætisráðherrarnir létu í ljósi þungar áhyggjur af þeim óheillavænlegu afleiðingum sem fjármálakreppan hefur haft á hagkerfi heimsins og lögðu áherslu á að þörf væri á skilvirkari reglum í heiminum til að ráða bót á því hvernig hinn alþjóðlegi fjármálamarkaður virkar.
- Við verðum, segja forsætisráðherrarnir, að koma upp skilvirkara kerfi til að geta varað snemma við kreppuástandi, koma upp stjórnun og eftirliti með fjármálakerfinu og vinna að því að styrkja alþjóðlegar fjármálastofnanir.
Geir H. Haarde, forsætisráðherra Íslands, gerði norrænu forsætisráðherrunum grein fyrir því hvernig mál hafa skipast á Íslandi. Ráðherrarnir lýstu yfir samstöðu með Íslendingum og sögðu að öðrum norrænum ríkjum bæri sérstök skylda til að standa saman að aðstoð við grannríki í erfiðleikum.
- Við erum afar ánægðir með að Íslendingar hafa gert bráðabirgðarsamkomulag við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (IMF) um aðgerðir sem stuðla eiga að stöðugleika í efnahagsmálum. Norrænu ríkin munu styðja þessa áætlun þegar hún kemur til umfjöllunar í stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Samkomulagið og áframhaldandi náið samráð við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn er mikilvægur grunnur að því að ná jafnvægi í íslenska hagkerfinu, sögðu forsætisráðherrarnir.
Norrænu forsætisráðherrarnir lögðu áherslu á að seðlabankar Norðurlanda hafi þegar gert samning um gjaldmiðlaskipti við Seðlabanka Íslands og voru upplýstir um að aftur hafi verið farið fram á slík skipti við norrænu seðlabankana. Þeir taka líka fram að Finnland sé hluti af Evru-svæðinu, en í samstarfi við önnur norræn ríki.
- Þessi ráðstöfun, ásamt þeim áformum íslensku ríkisstjórnarinnar að leita einnig eftir lánum frá öðrum seðlabönkum, eru mikilvægar aðgerðir til að efla tiltrú á frekari aðlögunaraðgerðir Íslendinga.
- Í samræmi við forsendur Alþjóðagjaldeyrissjóðins styðjum við viðleitni Íslendinga til að breyta efnahagskerfinu og snúa aftur á braut sjálfbærs hagvaxtar með verulegri aðlögun fjármálakerfisins, að lækkun á erlendri skuldastöðu og trúverðuga fjármálstefnu til lengri tíma. Til að ná þessu þarf að setja fram viðamikla umgjörð um efnahagsstefnuna til næstu ára.
Yfirlýsing fundarins á ensku
Yfirlýsing fundarins á sænsku
Reykjavík 27. október 2008