Hoppa yfir valmynd
28. október 2008 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Náttúruvefsjá komin í loftið

Náttúruvefsjá
Natturuvefsja.is

Náttúruvefsjáin hefur verið opnuð á netinu. Vefsjáin birtir fjölbreytt gögn um náttúrufar og auðlindir Íslands og á að m.a. að bæta möguleika almennings og skólafólks á að skoða náttúrufarsupplýsingar og fræðast um auðlindir landsins á lifandi hátt.

Markmiðið með Náttúruvefsjánni er að koma gögnum og niðurstöðum úr rannsóknum einstakra stofnana á framfæri á sameiginlegum vettvangi og í almenna notkun í leik og starfi. Þau nýtast jafnt stjórnsýslu, sérfræðingum, almenningi og fyrirtækjum, s.s. vegna búsetubreytinga, húsbygginga, í tengslum við ferðalög, afþreyingu og útivist.

Náttúruvefsjáin er afrakstur þróunarsamstarfs sem á uppruna sinn í verkefni sem hlaut styrk frá Rannís árið 1999 og hefur verið þróað áfram undir stjórn Vatnamælinga Orkustofnunar með aðkomu stofnana sem sinna öflun gagna um náttúru Íslands.

Samnýting á gögnum og miðlun þekkingar er lykilþáttur í þessu samstarfi og hefur mikil reynsla safnast og samstarf aðila á sviði gagnamála styrkst til muna. Aðilar að samstarfshópi um Náttúruvefsjá eru Íslenskar orkurannsóknir, Landmælingar Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands, Vatnamælingar, Umhverfisstofnun, Veðurstofan, Landbúnaðarháskóli Íslands, Líffræðistofnun Háskóla Íslands, Orkustofnun, Veiðimálastofnun og hugbúnaðarfyrirtækið Gagarín sem hannaði viðmót og forritaði lausnina.  Í gegnum Náttúruvefsjá hafa sérfræðingar og eigendur gagna aðgang að umsýsluviðmóti sem gerir þeim kleift að uppfæra og aðlaga landfræðileg gögn og miðla öðrum tengdum gögnum svo sem lýsigögnum, fróðleik og ljósmyndum. Einnig geta samstarfsaðilar sett fram tengla inn á ítarefni á eigin vefsíðum.

Hægt er að skoða á vefnum margvísleg gögn sem tengjast náttúru, auðlindum og náttúruvernd, þ.m.t. punkta, línur, fleka, fjarkönnunargögn, svo sem gervitunglagögn og loftmyndir, og tímaháðar landfræðilegar upplýsingar um t.d. veður og vatnafar. Með samræmdri miðlun á gögnum úr ólíkum áttum skapast einstakt tækifæri til að skoða upplýsingar í tíma og rúmi.

Náttúruvefsjáin.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta