Hoppa yfir valmynd
28. október 2008 Forsætisráðuneytið

Norðurlönd lýsa vilja til að aðstoða Ísland: Norrænum starfshópi falið að fylgja málinu eftir

Forsætisráðherra á fundi Norðurlandaráðs í Helsinki 27. okt.
Forsætisráðherra á fundi Norðurlandaráðs í Helsinki 27. okt.

Norðurlöndin hafa lýst sig reiðubúin að aðstoða Ísland við að kljást við ástandið í kjölfar hruns bankanna og hafa ákveðið að koma á laggirnar starfshópi háttsettra embættismanna til að fylgja málinu eftir. Hópnum er falið að fylgjast með framvindu samkomulags Alþjóða­gjaldeyris­sjóðsins við Ísland og hvernig Norðurlöndin gætu haft aðkomu að því máli.

Á fundi síðdegis í gær ræddu norrænu forsætisráðherrarnir um alþjóðlegu fjármálakreppuna og sér í lagi hina alvarlegu stöðu á Íslandi. Þeir komu sér saman um að skipa starfshóp háttsettra embættismanna til að fylgjast með framvindu íslenskra stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyris­sjóðsins um að koma á efnahagslegum stöðugleika á Íslandi.

Geir H. Haarde forsætisráðherra:

“Ég met mikils þann mikla stuðning sem ég fékk á fundinum í Helsinki í gær. Afar gagnlegt verður að hafa góða tengingu við norrænu ríkisstjórnirnar í gegnum vinnuhópinn. Við ætlum að sigrast á þessum erfiðleikum og standa sterkari á eftir sem þjóð,” sagði forsætisráðherra. Hann bætti við að Ísland hefði komist að bráðabirgðasamkomulagi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um 2 milljarða Bandaríkjadala lánafyrirgreiðslu frá sjóðnum. Hann lagði áherslu á að hann vildi ekki þrýsta á starfsbræður sína en að lánsfjárþörf Íslendinga næmi 4 milljörðum Bandaríkjadala.

“Ég fagna því að norrænu grannríkin og aðrar vinaþjóðir skuli vera reiðubúin að styðja okkur í að reisa við efnahag landsins eftir hið skyndilega hrun íslensku bankanna. Yfirlýst samstaða Norðurlandanna er okkur ákaflega mikils virði. Ég vona einnig að skoðanaskipti okkar verði fyrsta skrefið í átt til efldrar samvinnu Norðurlandanna til að takast á við hina alþjóðlegu fjármálakreppu sem gæti ógnað stöðugleika í fleiri ríkjum,” sagði Geir H. Haarde á fundi forsætisráðherra Norðurlandanna í Helsinki í gær sem haldinn var í tengslum við þing Norðurlandaráðs sem verður fram haldið í dag.

Yfirlýsing frá forsætisráðherrum Norðurlanda 27. október 2008 (/frettir/nr/3114)

Reykjavík 28. október 2008



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta