Hoppa yfir valmynd
29. október 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fjármálastofnanir virði jafnréttislög

Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, hefur sent forsvarsmönnum fjármálastofnana í eigu ríkisins bréf þar sem þeir eru hvattir til þess að virða í hvívetna ákvæði laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, innan nýrra stofnana og þá ekki síst við skipan í stjórnunar- og áhrifastöður. Bréfið í heild er svohljóðandi:

„Að gefnu tilefni vegna birtingar nýrra skipurita þriggja ríkisbanka vill félags- og tryggingamálaráðuneytið með bréfi þessu minna yður á mikilvægi þess að ákvæði laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, skuli í hvívetna virt.

Í þessu sambandi vill ráðuneytið sérstaklega benda á ákvæði 1. mgr. 18. gr. laganna þar sem lögð er sú skylda á atvinnurekendur að vinna sérstaklega að því að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækis síns eða stofnunar og stuðla að því að störf flokkist ekki í sérstök kvenna- og karlastörf. Er sú áhersla sem atvinnurekendur skulu leggja á að jafna hlut kynjanna í stjórnunar- og áhrifastöðum sérstaklega undirstrikuð í framangreindum lögum.

Þessi skylda hvílir á atvinnurekendum bæði á almennum vinnumarkaði sem og hjá hinu opinbera. Það er því grundvallaratriði að fjármálafyrirtæki í 100% eigu hins opinbera fari að ákvæðum laganna um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla og þýðingarmikið að nýju bankarnir gegni ákveðnu forystuhlutverki að þessu leyti á íslenskum fjármálamarkaði. Á þetta ekki síst við um skipan í stjórnir bankanna sem og stjórnunarstöður innan þeirra.“

Þess skal getið að Jafnréttisstofa annast eftirlit með framkvæmd jafnréttislaga og veitir meðal annars stjórnvöldum, stofnunum, fyrirtækjum, félögum og einstaklingum ráðgjöf í tengslum við jafnrétti kynjanna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta