Nr. 31/2008 - Aðalfundur Landssambands íslenskra útvegsmanna
Fréttatilkynning frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti
Nr. 31/2008
Ræða ráðherra á aðalfundi Landssambands íslenskra útvegsmanna
Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fjallaði um þá miklu efnahagsörðugleika sem við er að etja og Evrópumál í ræðu sinni á aðalfundi Landssambands íslenskra útvegsmanna sem haldinn var á Hilton Nordica hótelinu í dag.
Ráðherra sagði að vegna ástands mála hér hafi að nýju og með meiri þunga en áður, vaknað spurningar er lúta að stöðu okkar innan Evrópu og í evrópskri samvinnu. „Ég tel að það sé mikið gagnrýnisefni hvernig sú umræða hefur þróast á undanförnum mánuðum. Sú var tíðin að staða okkar innan Evrópu var rædd með miklu víðtækari hætti og almennari en nú er gert. Þegar farið er yfir þessa umræðu, eins og hún hefur gengið fram, mætti ætla að spurningarnar lúti eingöngu að því hvernig haga eigi gjaldmiðli okkar á komandi árum. Það er mjög miður að Evrópuumræðan, svo mikil að vöxtum sem hún er, fari fram út frá jafn þröngu sjónarhorni og nú gerist. Þessu þarf að breyta. Þær spurningar sem þarf að svara um Evrópusamvinnuna eru miklu flóknari og miklu margslungnari en umræða síðustu vikna og mánaða hefur gefið til kynna. En þegar allt kemur til alls fela svörin við spurningunum einfaldlega í sér blákalt hagsmunamat að lokum. Hvar eigum við að skipa okkur í sveit svo hagsmunum þjóðarinnar sé sem best borgið? Þetta er eins og að bera saman plústölurnar og mínustölurnar. Útkoman af þeim útreikningum ræður því hvar við skipum okkur í sveit. [...] Í því sambandi er alveg ljóst að þegar við leggjum hið jákvæða og það neikvæða á vogarskálarnar, þá er sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins sannarlega eitt af því sem er ósamrýmanlegt íslenskum hagsmunum. Hún yrði örugglega í dálkinum með neikvæðu tölunum. Eða vill einhver halda því fram að sjávarútvegi okkar yrði betur borgið innan laga og regluverks ESB en hins íslenska? Talað hefur verið um ýmiss konar möguleika á því að fá varanlegar undanþágur. Þegar glöggt er skoðað er þó alveg ljóst að þær undanþágur sem vísað hefur verið til eru af þeim toga að þær kæmu að litlu gagni fyrir okkur sem fiskveiðiþjóð.“
Um efnahagsvandann og það hvort vaktin hafi verið staðin nægilega vel og hvort ekki hafi mátt sjá hremmingarnar fyrir sagði ráðherra: „Þeir eru sannarlega margir sem nú stíga fram og segja að allt hafi þetta verið fyrirsjáanlegt. Gott er að vita að við eigum svo skynsamt og framsýnt fólk að það hafi séð alla þessa hluti fyrir. Og þeir eru auðvitað til, eins og við þekkjum svo sem, sem alltaf og alls staðar hafa sagt að allt sé á leið norður og niður. Núna eru þeir auðvitað mættir til leiks og segja: “Sagði ég ekki” og telja sjálfa sig hafa verið framsýna spámenn. En gleymum þá ekki heldur hinu, að það er ekki ýkja langt síðan, það var raunar langt fram á þetta ár, að fjármálafyrirtækin okkar – og svo ekki sé nú talað um skuldalausan ríkissjóðinn – fengu fyrstu ágætiseinkunn hjá þeim alþjóðlegu matsfyrirtækjum sem mestrar viðurkenningar njóta. Sannarlega er rétt að það voru ýmsir váboðar sem gáfu okkur til kynna að rifa þyrfti seglin. Ég ætla þó að fullyrða að enginn er sá til í heiminum sem gat með neinum rökum sýnt fram á, til dæmis í ársbyrjun, að það stefndi í þá grafalvarlegu stöðu sem nú er komin upp. Því hefði þetta verið augljóst, þá væri staðan að sjálfsögðu ekki sú sem raun ber vitni. Bandaríkin, Evrópa og lönd um allar heimsins álfur glíma við svipuð vandamál og við. Þar hafa menn því augljóslega verið jafn glámskyggnir og við.“
Gjaldeyrisviðskipti hafa verið miklum vandkvæðum bundin undanfarnar vikur og gert sjávarútvegsfyrirtækjum líkt og öðrum mjög erfitt fyrir. „Það er kunnara en frá þarf að segja að verkefni útgerðarmanna og útflytjenda síðustu daga og vikur hefur verið að tryggja að greiðslur fyrir afurðir bærust hingað til lands og það eftir áður óþekktum leiðum og reyndar alls konar krókaleiðum, sem ég ætla ekki að fjölyrða um. Þá hafa stjórnvöld lagt sig fram um að greiða fyrir þessum viðskiptum. Seðlabankinn, ráðuneyti, sendiráð og fleiri hafa lagt þar sín lóð á vogarskálarnar. Ég fullyrði að þar hafa allir lagt sig fram og það ber mjög að þakka því ágæta starfsfólki sem hefur átt hlut að máli. Það er ekki við það að sakast að mál hafa þokast alltof hægt áfram. Vandamálið kristallast hins vegar í því að marga af þessum rembihnútum í gjaldeyrisviðskiptunum hefur einfaldlega ekki verið á okkar valdi að leysa. Þar hafa aðrir tekið ákvarðanir og bókstaflega tekið af okkur völdin. Ég veit þetta vel, því sjálfur hef ég haft bein afskipti af þessum málum hvað eftir annað og reynt að beita því afli, því valdi og þeim áhrifum sem ég hef haft mátt til. Þar hef ég meðal annars leitað leiða í gegnum pólitísk sambönd í nágrannalöndum okkar, ekki síst í Bretlandi. Ég hef til dæmis átt samtöl við hinn nýja sjávarútvegsráðherra Bretlands, Huw Irranca Davies og aðra áhrifamenn þar ytra. Í þeim hópi vil ég sérstaklega nefna góðvin okkar Austin Mitchell þingmann Grimsbysvæðisins, sem hefur lagt okkur lið af alefli. Sumt af því hefur borið árangur og einstaka leiðir hafa opnast, eins og við þekkjum, en það breytir því ekki að gjaldeyrisviðskiptin eru ekki komin í eðlilegt horf. Því fer enn víðs fjarri.“
Þá ræddi Einar Kristinn um þær undarlegu hugmyndir sem skotið hafa upp kollinum að nú eigi að nota tækifærið, þegar verst standi á í sjávarútveginu, til að kippa undan honum fótunum. „Hér á ég við þær hugmyndir sem ganga út á að leysa til ríkisins aflaheimildir í sjávarútvegi og ganga í því sambandi til einhvers konar skuldaskilasamninga við sjávarútvegsfyrirtækin, einmitt núna þegar efnahagsreikningar þeirra eru í uppnámi vegna gengishrunsins. Finnst mönnum virkilega ekki nóg að gert? Ímyndar sér einhver að það yrði þjóðfélaginu til gagns að reiða nú til höggs gagnvart sjálfri undirstöðuatvinnugreininni þegar við erum búin að missa fjármálakerfið okkar á hliðina? Er ekki skynsamlegra að taka saman höndum, reyna að vinna sig út úr þeim vanda sem við er að glíma og styrkja fjárhagslegan grundvöll atvinnugreinarinnar svo hún geti sem best tekist á við sín mikilvægu verkefni?“
Ennfremur var fjallað um deilistofna þar sem meðal annars kom fram að Íslendingum hafi nú í fyrsta skipti verið boðið að sitja fund strandríkja vegna makríls, þó reyndar aðeins sem áheyrnarfulltrúum. „[S]endinefnd Íslands mun að sjálfsögðu ítreka þá afstöðu á fundinum að Ísland geti ekki annað en talist sem fullgilt strandríki í ljósi þess að mikið er um makríl innan okkar lögsögu. Ríflega 100 þúsund tonna veiði hlýtur að segja sína sögu. Þrátt fyrir ágreining um formsatriði er rétt að fagna því að okkur hefur loksins tekist að komast að samningaborðinu. Vonandi gengur hratt og vel að ná niðurstöðu sem við getum sætt okkur við.“
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu
30. október 2008