Norrænn sköpunarkraftur - svar við áskorunum hnattvæðingar
Yfirlýsing norrænu forsætisráðherranna eftir fundinn í Punkaharju 2007 er stefnumótandi í samstarfi Norrænu ráðherranefndarinnar um áskoranir og tækifæri hnattvæðingarinnar. Í framhaldi af því hafa norrænu menningarráðherrarnir samþykkt framsækna hnattvæðingaráætlun fyrir norrænt samstarf um menningarmál og fjölmiðla þar sem menning verður sjálfstæður málaflokkur í norrænum hnattvæðingaraðgerðum.
Sýnin er að norrænt menningarsamstarf tryggi, skapi og beri vott um gæði, sköpunarkraft og fjölbreytni í heilbrigðri og sjálfbærri hnattvæðingu.
Markmiðið er að norræn list og menning verði sýnilegri á alþjóðavettvangi og hafi jákvæð áhrif þegar brugðist er við áskorunum hnattvæðingarinnar og tækifæri hennar nýtt.
Menningarmál eru mikilvægar stoðir í norrænu samstarfi. Í alþjóðlegri samkeppni eykst mikilvægi sköpunarkrafts, nýsköpunar, hönnunar sem og afurða og upplifana sem endurspegla sérkenni þjóðanna. Að sama skapi gegna samræður þjóða og menningarheima æ stærra hlutverki við friðarumleitanir og varðveitingu friðar á jörðu. Því gætir sífellt meira sjónarmiða menningar og efnahagslífs þegar Norðurlöndunum er hampað sem aðlaðandi samstarfsaðila úti um allan heim.
Nýtt skipulag norræns menningarsamstarfs gefur kost á að vekja markvisst og enn frekar þann áhuga á menningarlegum áskorunum og tækifærum hnattvæðingarinnar sem þegar einkennir norrænt menningarsamstarf.
Í kjölfar yfirlýsingar forsætisráðherranna ákváðu menningarmálaráðherrarnir að leggja áherslu á hnattvæðinguna sem almennt markmið í norrænu menningarsamstarfi. Norrænu húsin, sjóðir, stofnanir, áætlanir og samstarfshópar hafa unnið að tillögum að samstarfssviðum og aðgerðum í hnattvæðingaráætlun á menningarsviði.
Með aukinni áherslu á hnattvæðingu í menningarmálum verður byrjað á eftirfarandi þverfaglegum aðgerðum þar sem vænta má að norrænt samstarf skili meiri árangri en ella.
Metnaðurinn er – í samræmi við yfirlýsingu norrænu forsætisráðherranna í Punkaharju – að skapa sýnilegri Norðurlönd, vitrari Norðurlönd og vel stæð Norðurlönd.
Sýnilegri Norðurlönd - Norræn menning veki athygli á alþjóðavettvangi
Norðurlöndin hafa alla burði til að vera í fararbroddi þróunar á skapandi atvinnugreinum í heiminum. Norðurlandaþjóðirnar hafa náð langt á heimsmælikvarða, til dæmis á sviði kvikmyndagerðar, tónlistar, bókmennta, arkitektúrs og hönnunar. Á undanförnum árið hafa öll ríkin hafið samstarf menningar- og atvinnulífs til þess að nýta tækifæri sem skapast í upplifunariðnaði.
Kvikmyndir og tölvuleikir eru þær greinar skapandi iðnaðar sem eru í örustum vexti. Norræna tölvuleikjaáætlunin á að tryggja framleiðslu á vönduðum norrænum tölvuleikjum fyrir börn og unglinga, en Norræni kvikmynda- og sjónvarpssjóðurinn á að efla framleiðslu og dreifingu á vönduðum kvikmyndum.
Í samstarfi við atvinnulífið á norrænt menningarsamstarf að skapa samlegðaráhrif við þróun og kynningu á skapandi atvinnugreinum og upplifunariðnaði. Í því skyni hyggjast menningarráðherrarnir taka frumkvæði að samræðum við viðskiptaráðherrana.
- Norrænu menningarráðherrarnir vinna nú að undirbúningi nýs menningarsamstarfs innan vébanda Norðlægu víddarinnar. Eitt markmið þess verður að styrkja stöðu skapandi iðnaðar og auka sóknarfæri á alþjóðamarkaði. Menningarsamstarf Norðlægu víddarinnar ber að skoða í ljósi KreaNord-verkefnisins.
- Sett hefur verið á fót þverfaglegur norrænn starfshópur í því skyni að þróa og kynna skapandi atvinnugreinar. KreaNord á að vera vettvangur fyrir reynslu, hæfni og þróunarsýn fyrir menningar- og atvinnulíf.
- Norrænu tölvuleikjaáætluninni var komið á fót með alþjóðlega markaðssetningu í huga og er henni ætlað að annast samnorrænt kynningarstarf. Stafrænt dreifingarkerfi áætlunarinnar verður einnig látið ná til alþjóðlegra markaða. Áætlunin á að vera norrænn tengill fyrir stefnumótandi samstarf.
- Norræni kvikmynda- og sjónvarpssjóðurinn verði þróaður með alþjóðlegar kynningar í huga þar sem norrænum kvikmyndum er slegið upp sem einu vörumerki. Fjárfest verður í að setja norrænar kvikmyndir í stafrænt form af hæstu HD gæðum. Það á að tryggja alþjóðlegri dreifingu á norrænum kvikmyndum og bæta tekjulindir norrænnar kvikmyndagerðar.
- Verðlaun Norðurlandaráðs í bókmenntum, tónlist- og kvikmyndagerð eiga þátt í að efla alþjóðlega markaðssetningu Norðurlandanna.
-
Þá ber að þróa hlutverk norrænu húsanna og stofnana við eflingu menningarferðaþjónustu á Norðurlöndum og Vestur-Norðurlöndum í samráði við þessar stofnanir.
-
Norrænu menningarráðherrarnir hyggjast bjóða upp á vandaða norræna menningu svo eftir verður tekið á heimssýningunni í Sjanghæ 2010 en þema hennar er „Better City, Better Life". Sett verður upp ný norræn hönnunarsýning með áherslu á vöruhönnun, húsagerðarlist og sjónræna hönnun. Sýningin fer einnig á mikilvæg söfn í Peking, Nanjing, Xian, Chengdu og Guangdong.
Vitrari Norðurlönd - Norðurlandaþjóðirnar skapi og laði að sér þekkingu
Norðurlandaþjóðirnar hafa alla burði til þess að gegna lykilhlutverki við alþjóðlega þróun og miðlun þekkingar í menningarmálum. Á menningarsviði er löng hefð fyrir að skapa tengsl á milli þjóða sem og skipta-, ferða- og dvalaráætlanir en það hefur bæði laðað alþjóðlega þekkingu að Norðurlöndunum og átt þátt í að miðla norrænni þekkingu út í heim.
Á grundvelli norræns menningarsamstarfs á að þróa hæfileika fólks enn frekar, auka sameiginlega hæfni og leita sameiginlegra lausna á verkefnum yfir landamæri.
- Norrænu samstarfsverkefni menningarstofnana og skóla verður ýtt úr vör. Norrænn hópur á sviði lista, menningar og skóla heldur alþjóðlega ráðstefnu, meðal annars í því skyni að nýta sameiginlega hæfni og þróa skipti á verkefnum, nemendum og listafólki.
- NORDICOM gegnir mikilvægu hlutverki á vettvangi Sameinuðu þjóðanna þar sem unnið er að alþjóðlegri tölfræði um fjölmiðla og samskiptatækni sem og vísbenda um góða stjórnarhætti. Alþjóðleg og þörf fjölmiðlatölfræði sem unnin er á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar á að efla alþjóðlegt mikilvægi Norðurlandanna við þekkingarframleiðslu þar sem gæði eru í öndvegi.
- Í tengslum við samningaviðræður um nýja norræna-baltneska ferða- og dvalaráætlun verður komið á fót nýju styrkjakerfi fyrir framleiðslumiðaða starfsemi. Verkefnið er í samræmi við þróun á sviði nýskapandi nútímalistar og mun efla stöðu norrænnar listar á alþjóðavettvangi.
- Norræna húsið í Reykjavík verður, í samstarfi við önnur norræn hús og stofnanir, miðstöð Norðurlandanna fyrir Nýja norræna matargerðarlist en hlutverk hennar verður að miðla og dreifa þekkingu um norræn hráefni og norræna matargerðarlist bæði í okkar heimshluta og víðar um heim.
Vel stæð Norðurlönd - Norræn lýðræðis- og samræðuhefð verði öðrum hvatning
Norðurlöndin eru öðrum ríkjum heims fyrirmynd á sviði lýðræðis og menningarsamskipta. Þá vekur áhersla á aðgengi í norrænni menningarstefnu athygli víða um heim. Norðurlöndin hafa verið hvatning við uppbyggingu lýðræðis og tjáningarfrelsis í ríkjunum við Eystrasalt.
Öll Norðurlöndin hafa fullgilt ákvæði yfirlýsingar UNESCO um að vernda og efla menningarlega fjölbreytni og skuldbundið sig til þess að fylgja þeim eftir, bæði í ríkjunum sjálfum og á alþjóðavettvangi.
Yfirlýsingin byggist á mannréttindum. Þar er slegið föstu rétti ríkja til þess að fylgja menningarstefnu og fjallar yfirlýsingin um menningarlega fjölbreytni, menningarafurðir og menningarþjónustu, samræður á milli menningarheima, menningu og þróun auk alþjóðlegs menningarsamstarfs.
Efla þarf hlutverk norræns menningarsamstarfs við að skapa og miðla friðsamlegum lýðræðislegum samræðum og samspili á milli menningarheima.
- Koma þarf á kerfisbundnu norrænu samstarfi um reynslu þjóðanna af fullgildingu á ákvæðum yfirlýsingar UNESCO um menningarlega fjölbreytni. Þá þurfa Norðurlöndin að leita leiða til að skapa dæmi um bestu starfsvenjur með sérstakri áherslu á menningarlegar áskoranir hnattvæðingarinnar.
- Verkefni Nordicom fyrir UNESCO um þekkingar- og skráningarmiðstöð fyrir börn, ungmenni og fjölmiðla – International Clearinghouse on Children, Youth and Media – þarf að efla fram að fyrsta heimsfundinum um fjölmiðla fyrir börn og ungmenni sem haldinn verður í Evrópu (í Karlstad í Svíþjóð) 2010.
- Norrænu húsin og stofnanirnar fimm koma með sameiginlega tillögu að því hvernig þau munu gegna hlutverkinu sem gluggar og samstarfsaðilar fyrir grannsvæði Norðurlandanna og menningarlífið þar.
Eftirfylgni og fjármögnun
Framkvæmd þessara aðgerða fer fram undir forystu menningarráðherranna í samstarfi við aðrar ráðherranefndir sem málið varðar auk þess sem haft verður samráð við Norðurlandaráð.
Fyrstu hnattvæðingaraðgerðirnar á menningarsviði verða fjármagnaðar á fjárlögum menningarráðherranna (gert er ráð fyrir 50 milljónum DKK), að því tilskildu að rammafjárhagsáætlun næsta árs haldist óbreytt. Leitast verður við að framkvæma nokkur verkefni í samstarfi við aðrar ráðherranefndir.
Samstarfsráðherrarnir eru hvattir til þess að verja 10 milljónum DKK af fjárlögum Norrænu ráðherranefndarinnar 2010 til að fjármagna
hnattvæðingaraðgerðir undir yfirskriftinni Sýnilegri Norðurlönd. Menningarráðherrarnir munu hafa forystu um þær aðgerðir í samstarfi við viðskiptaráðherrana. Þær verða í tengslum við KreaNord-verkefnið og framkvæmdar af stofnunum og áætlunum sem málið varðar.