Fjölgun úrræða fyrir aldraða
Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, hefur úthlutað rekstrarheimildum til sveitarfélaga og dvalar- og hjúkrunarheimila sem fela í sér verulega fjölgun úrræða fyrir aldraða, ekki síst fjölgun sértækra úrræða fyrir heilabilaða. Heimildirnar gilda frá 1. nóvember síðastliðnum og eru eftirfarandi:
- Dagvistarrýmum sem sérstaklega eru ætluð fyrir heilabilaða fjölgar um 17. Af þeim verða tíu í Árborg, fimm í Reykjanesbæ og tvö á Fljótsdalshéraði. Fljótsdalshérað fær einnig heimild til að bæta við einu almennu dagvistarrými.
- Hvíldarrýmum fyrir heilabilaða fjölgar um sjö og verða þau öll rekin í Drafnarhúsum í Hafnarfirði.
- Almennum hvíldarrýmum fyrir aldraða fjölgar um 22. Bætt verður við sex nýjum almennum hvíldarrýmum fyrir aldraða, þar af fimm í Ási í Hveragerði og eitt sem verður rekið til bráðabirgða á Hjallatúni á Vík. Jafnframt verður 16 almennum hjúkrunarrýmum á Hrafnistu í Reykjavík breytt í hvíldarrými.
- Almennum hjúkrunarrýmum fyrir aldraða fjölgar um 19 samtals á nokkrum stofnunum sem allar eru utan höfuðborgarsvæðisins. Á móti verður dvalarrýmum fækkað um sama fjölda.
Ákvörðun ráðherra er í samræmi við þá stefnu félags- og tryggingamálaráðuneytisins og stjórnvalda að styðja skuli aldraða til að búa á eigin heimili eins lengi og kostur er. Dagvistar-og hvíldarrými eru úrræði ætluð öldruðum sem búa heima en þurfa aðstoð, stuðning og hvatningu umfram það sem unnt er að veita í heimahúsi eða geta nýtt sér slík úrræði tímabundið til þjálfunar og endurhæfingar, til dæmis í kjölfar veikinda eða annarra áfalla. Sama á við varðandi fjölgun hjúkrunarrýma á kostnað dvalarrýma. Með aukinni áherslu á þjónustu og úrræði fyrir aldraða sem búa heima dregur úr þörf fyrir dvalarrými. Aldraðir sem ekki geta búið heima með þeim stuðningi sem í boði er þurfa hins vegar frekar á hjúkrunarrými að halda.