Málþing Almannaheilla
Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, ávarpaði málþing Almannaheilla í dag sem samtökin efndu til í því skyni að ræða hvernig íslensk samtök sem starfa í almannaþágu geti bruðist við afleiðingum fjármálakreppunnar og átt þátt í því að byggja upp nýtt og betra samfélag. Ráðhera sagði meðal annars: „Það leikur enginn vafi á því að mikilvægi þeirrar starfsemi sem þegar er sinnt í ríkum mæli í samfélaginu af hálfu frjálsra félagasamtaka á eftir að aukast verulega á næstunni vegna erfiðra aðstæðna í samfélaginu. Því er ég þakklát Almannaheillum fyrir að efna til þessa málþings til að ræða hvernig samtök sem vinna að velferð í samfélaginu geti tekið þátt í því að byggja upp nýtt og betra samfélag.
Mikilvægt er að stjórnvöld sýni því skilning að ekki má draga úr framlögum eða styrkjum til almannasamtaka á þessum erfiðu tímum, ekki síst þegar hætt er við að draga muni úr frjálsum framlögum einstaklinga og fyrirtækja. Starfsemi þeirra er mikilvægari nú en nokkru sinni og þau munu gegna stóru hlutverki í því endurreisnarstarfi sem framundan er.
Samfélagið þarf á öllum tiltækum kröftum að halda og það er mikilvægt að virkja allt það afl sem býr í samfélaginu til góðra verka. Það er einnig von mín að á tímum vaxandi atvinnuleysis muni margir finna kröftum sínum farveg og ganga til liðs við samtök á þessum vettvangi. Það verður nóg að starfa fyrir vinnufúsar hendur, fólk sem vill og getur lagt mikið af mörkum í því uppbyggingarstarfi sem framundan er."