Ræddi sameiningarmál við fulltrúa fámennra sveitarfélaga
Kristján L. Möller samgönguráðherra ræddi í dag um sameiningarmál sveitarfélaga við fulltrúa fámennra sveitarfélaga sem hafa með sér óformleg samtök innan Sambands íslenskra sveitarfélaga. Ráðherran lýsti hugmynd sinni um að hækka lágmarksíbúafjölda úr 50 í 1.000 og skiptist á skoðunum við fundarmenn.
Fulltrúar fámennra sveitarfélaga óskuðu eftir fundi með ráðherra sveitarstjórnarmála til að heyra nánar frá honum um sameiningarhugmyndir. Fór Kristján í máli sínu yfir þýðingu þess að efla og stækka sveitarfélög til að þau yrðu betur í stakk búin til að standa undir öflugri þjónustu og nýjum verkefnum sem þeim verða falin.
Fram kom í máli ráðherrans að hann hyggst í mánuðinum kynna frumvarp um að hækka lágmarksfjölda íbúa sveitarfélaga, sem er í dag 50, í eitt þúsund. Lýsti hann þeirri hugmynd að sveitarfélögum yrði gefinn aðlögunartími til að vinna að sameiningu fram á árið 2012 en eftir það myndi hin væntanlega lagabreyting taka gildi. Sagði hann þó að ef rök mæltu með undanþágum yrði tekið tillit til sérstakra aðstæðna.
Hátt í 50 forráðamenn eða fulltrúar sveitarfélaga með innan við þúsund íbúa sátu fundinn og lýstu þeir margir sig andvíga hugmyndum um að lögbinda lágmarksfjölda, sem sumir töldu til forsjárhyggju, en kváðust sammála því að sameina mætti sveitarfélög. Fram kom hjá fundarmönnum að skilyrði fyrir frekari sameiningum væru til dæmis umbætur í samgöngu- og fjarskiptamálum og horfa yrði til margs konar landfræðilegra aðstæðna við sameiningar fremur en ákveðins íbúafjölda. Þar skiptu og tekjumöguleikar sveitarfélaganna höfuðmáli. Þá bentu nokkrir fundarmanna á góðan árangur af samvinnu sveitarfélaga um ýmsa þjónustu. Einnig kom fram í máli þeirra að brýnt væri að aukaframlag frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, sem greitt var á þessu ári og því síðasta, fengist greitt áfram nú þegar séð væri fram á mikla tekjurýrnun sveitarfélaga.
Fulltrúar fámennra sveitarfélaga og samgönguráðherra ræddu sameiningarmál á fundi síðdegis. |