Áratugur milli umhverfisverðlauna
Nú eru tíu ár liðin frá því að Íslendingar unnu fyrst til umhverfis- og náttúruverðlauna Norðurlandaráðs. Þá fengu Landgræðsla ríkisins og Landbúnaðarháskóli Íslands (þá Rala) verðlaunin. Íslendingar unnu næst til verðlaunanna í ár þegar Marorka hlaut verðlaunin fyrir þróun upplýsingatækni sem minnkar orkunýtingu við siglinar verulega.
Landgræðsla ríkisins og Landbúnaðarháskólinn fengu verðlaunin á sínum tíma fyrir verkefnið Jarðvegsvernd. Verkefnið fól meðal annars í sér þróun á aðferðafræði og viðamikla kortlagningu á jarðvegsrofi í landinu öllu sem gefin var út í bókinni Jarðvegsrof á Íslandi. Notast var við nýjustu upplýsingatækni og myndir teknar úr gervitunglum, sem var nýlunda þá.
Í rökstuðningi dómnefndar verðlaunanna í ár segir: ,,Marorku hefur á einstakan hátt tekist að sameina rannsóknir og framleiðsluþróun sem mun til lengri tíma litið hafa jákvæð áhrif á loftslag jafnframt því að framleiðslan mun skila hagnaði. Bent hefur verið á það að undanförnu að losun frá siglingaiðnaðurinn sé verulegur og valdi áhyggjum. Uppfinning Marorku mun nýtast til að minnka þetta alþjóðlega vandamál."
Marorka þróar og framleiðir kerfi til orkustjórnunar og -framleiðslu fyrir skip. Fyrirtækið stundar einnig orkurannsóknir tengdar siglingum. Kerfin eru bæði orkusparandi og minnka losun. Marorka vinnur í samstarfi við helstu skipafélög á Norðurlöndunum og í heiminum öllum. Verkefnið er árangur fjölda árangursríkra rannsóknaverkefna sem hafa verið fjármögnuð með íslensku og norrænu fjármagni. Framleiðsla Marorku er gott dæmi um hagnýtar rannsóknir nýst hafa bæði iðnaðinum og umhverfinu. Nýsköpunin getur haft í för með sér verulegan sparnað meðal annars á losun koltvísýrings CO2 út í andrúmsloftið. Það skiptir verulegu máli, sérstaklega á norðurhveli jarðar, þar sem reiknað er með að siglingar munu aukast töluvert í framtíðinni.
Náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs eru ein af fjórum verðlaunum ráðsins. Hin verðlaunin eru á sviði bókmennta, kvikmynda og tónlistar.
Frétt á heimasíðu Landgræðslu ríkisins.