Tímabundinn gjaldfrestur á aðflutningsgjöldum
Fjármálaráðuneytið, fréttatilkynning nr. 19/2008
Á ríkisstjórnarfundi fyrr í dag lagði fjármálaráðherra fram frumvarp um tímabundnar breytingar á tollalögum, þar sem lagt er til að virðisaukaskattskyldum aðilum verði veittur gjaldfrestur á hluta af aðflutningsgjöldum, þmt. virðisaukaskatti, vegna innflutnings á tímabilinu september og október 2008, en greiðsla þeirra fellur í eindaga þann 17. nóvember nk. Með þessu er komið til móts við þau fyrirtæki sem lent hafa í greiðsluerfiðleikum vegna gengisfalls íslensku krónunnar og truflana í gjaldeyrisviðskiptum.
Samkvæmt frumvarpinu verður umræddum aðilum heimilað að greiða þá fjárhæð sem fellur í eindaga 17. nóvember með þremur jöfnum greiðslum, þ.e. þann 17.nóvember 2008, 15. desember 2008 og 5. janúar 2009. Þeir sem velja þessa leið munu þurfa að greiða almenna meðalvexti af þeim hluta greiðslunnar sem frestað er í stað dráttarvaxta. Vextir verða í þessu tilviki jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður og birtir á hverjum tíma skv. 1. mgr. 8.gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Þeir sem nýta sér þessa heimild verða ótilkvaddir að greiða þær fjárhæðir sem eru í gjaldfresti hjá innheimtumanni ríkissjóðs á umræddum gjalddögum. Að öðru leyti gilda ákvæði tollalaga um gjalddaga og greiðslufyrirkomulag.
Ríkisstjórnin samþykkti frumvarpið fyrir sitt leyti og verður það lagt fyrir Alþingi eins fljótt og kostur er. Þá mun fjármálaráðherra beina þeim tilmælum til tollyfirvalda að þeir loki ekki fyrir tollafgreiðslu hjá þeim sem standa í skilum með aðflutningsgjöldin í samræmi við ákvörðun ríkisstjórnarinnar á meðan frumvarpið er í meðförum Alþingis. Gjaldendum verður gerð grein fyrir því að uppgjör með þessum hætti fari fram með fyrirvara um samþykki Alþingis.