Undirritun viljayfirlýsingar um lán frá færeysku landstjórninni
Fjármálaráðuneytið, fréttatilkynning nr. 21/2008
Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, og Jóannes Eidesgaard, fjármálaráðherra Færeyja, áttu í dag fund í Reykjavík þar sem rætt var um lán sem Færeyingar buðust nýlega til að veita íslenska ríkinu. Í lok fundarins undirrituðu ráðherrarnir viljayfirlýsingu um lánið. Gert er ráð fyrir að um verði að ræða lán að fjárhæð 300 milljónir danskra króna. Lánið verður afborgunarlaust fyrstu 5 árin en að þeim tíma liðnum verður samið nánar um endurgreiðslutímann. Lánið mun bera sömu vexti og færeyska landstjórnin greiðir vegna sinna lántaka. Lánveitingin er háð samþykki færeyska lögþingsins.
Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, og Jóannes Eidesgaard, fjármálaráðherra Færeyja
Við undirritun viljayfirlýsingarinnar bað fjármálaráðherra fyrir hlýjar kveðjur til Færeyinga fyrir þann vinarhug sem þeir sýna Íslendingum með lánveitingunni.
Reykjavík 18. nóvember 2008