Hoppa yfir valmynd
20. nóvember 2008 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fullgilding tvísköttunarsamninga

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 13. nóvember 2008 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Nýlega voru tvísköttunarsamningar sem Ísland hefur gert við Ítalíu og Úkraínu fullgiltir og munu þeir koma til framkvæmda þann 1. janúar 2009.

Markmiðið með gerð tvísköttunarsamninga er fyrst og fremst að koma í veg fyrir tvísköttun á tekjum og eignum sem óhjákvæmilega leiðir til ójafnræðis milli aðila, en einnig að koma í veg fyrir undanskot frá skatti. Með tvísköttun er átt við álagningu sambærilegra skatta í tveimur eða fleiri ríkjum á sama skattaðila, á sama skattstofn og á sama tímabili.

Helstu efnisatriði samningsins við Ítalíu eru þau að afdráttarskattur af arði er 5% ef móttakandi á a.m.k. 10% í félaginu sem greiðir arðinn en afdráttarskattur er 15% í öllum öðrum tilvikum. Enginn afdráttarskattur er á vöxtum en samið var um 5% afdráttarskatt af þóknunum.

Sérstakt ákvæði er um skattlagningarrétt er varðar uppsagnargreiðslur eða bætur við starfslok en eingöngu er heimilt að skattleggja þær í greiðsluríkinu. Meginreglan er sú að eftirlaun eru skattlögð í því ríki þar sem aðili er heimilisfastur. Í samningnum er sérstakt undanþáguákvæði fyrir prófessora og kennara er varðar skattskyldu í kennsluríki.

Í samningnum við Úkraínu er svipað ákvæði er varðar afdráttarskatt af arði nema gerð er krafa um 25% eignarhald. Samið var um 10% afdráttarskatt af vöxtum og þóknunum. Þrátt fyrir að hvorki Ísland né Úkraína leggi á eignaskatt var að kröfu Úkraínu fallist á að samningurinn næði einnig til eigna þar sem þeir hyggja á upptöku eignaskatts í náinni framtíð.

Tvísköttunarsamningar öðlast gildi að þjóðarrétti þegar samningarnir hafa verið fullgiltir af báðum samningsríkjum. Fullgildingarferli ríkja er ekki alls staðar eins en það ferli hefst að lokinni undirritun beggja aðila sem yfirleitt eru utanríkisráðherrar ríkjanna eða aðrir ráðherrar í umboði utanríkisráðherra. Þegar því ferli lýkur fara tilkynningar á milli utanríkisráðuneyta ríkjanna um að stjórnskipulegri málsmeðferð sé lokið og dagsetning á móttöku síðari tilkynningarinnar telst vera gildisdagsetning samningsins.

Á Íslandi fer þetta þannig fram að samningurinn er lagður fyrir ríkisstjórn til samþykktar en í 1. mgr. 119. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, er að finna heimild fyrir ríkisstjórnina til að gera samninga við stjórnir annarra ríkja um gagnkvæmar ívilnanir á sköttum. Tvísköttunarsamningar eru síðan birtir í C-deild Stjórnartíðinda til þess að þeir öðlist gildi en þó með þeim fyrirvara að óbirt fyrirmæli binda stjórnvöld frá gildistöku þeirra.

Flest önnur ríki þurfa að fara með samninga bæði fyrir ríkisstjórn og þing og eru þeir afgreiddir þaðan sem lög og síðan birtir opinberlega. Slíkt ferli getur tekið mislangan tíma eins og best sést á því að samningurinn við Ítalíu var ekki fullgiltur af þeirra hálfu fyrr en nú í haust en sjálfur samningurinn var undirritaður í september 2002 og fullgiltur af Íslands hálfu á árinu 2003. Mikið var þrýst á ítölsk stjórnvöld af hálfu utanríkisráðuneytisins og fleiri aðila að hraða fullgildingu samningsins þar sem töfin olli íslenskum fyrirtækjum sem höfðu fjárfest á Ítalíu, erfiðleikum. Til dæmis lentu vaxtagreiðslur frá Ítalíu í afdráttarskatti, sem gat numið allt að 27% eftir því hver greiddi vextina, en skv. tvísköttunarsamningnum er enginn afdráttarskattur lagður á vexti.

Fullgildingarferli samningsins við Úkraínu er hins vegar gott dæmi um „eðlilegan” tímaramma en sá samningur var undirritaður í nóvember 2006, fullgiltur af hálfu Íslands fljótlega á eftir og samþykktur af Úkraínuþingi í september 2008 eftir að hann var samþykktur af ríkisstjórn landsins í apríl sama ár.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta