Hoppa yfir valmynd
20. nóvember 2008 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Samantekt varðandi möguleg úrræði um sálrænan stuðning

Í ljósi efnahagsástandsins og þeirrar óvissu sem ríkir nú í samfélaginu hefur menntamálaráðherra látið vinna samantekt varðandi möguleg úrræði um sálrænan stuðning.

Í ljósi efnahagsástandsins og þeirrar óvissu sem ríkir nú í samfélaginu hefur menntamálaráðherra látið vinna samantekt yfir möguleg úrræði um sálrænan stuðning við börn og ungmenni í skólum landsins og í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Svipuð samantekt var einnig unnin fyrir nemendur í háskólum og öðrum fræðslustofnunum landsins. Markmiðið með þessu var að styðja við starfsfólk skóla, fræðslustofnana og stjórnendur íþrótta- og æskulýðsstarfs til að veita nemendum stuðning og stuðla þannig að velferð.

Þessi samantekt var unnin í samstarfi við samráðshóp sem settur var á laggirnar vegna efnahagsástandsins. Í þeim hópi sitja fulltrúar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Félagi íslenskra framhaldsskóla, Skólameistarafélagi Íslands, Kennarasambandi Íslands, Félagi náms- og starfsráðgjafa, Menntasviði Reykjavíkurborgar og Heimili og skóla. Úrræðin er að finna á vefsíðu ráðuneytisins, sem og leiðbeiningar sérstaklega ætlaðar börnum og ungmennum um líðan við erfiðar aðstæður.

Menntamálaráðuneyti vill enn fremur leggja áherslu á að víða er sérfræðiþjónusta og þekking til staðar innan skóla, fræðslustofnana, íþrótta- og æskulýðsfélaga, í sveitarfélaginu og í nærsamfélaginu sem hægt er að nýta. Virk samskipti skóla, íþrótta- og æskulýðsfélaga og heimila eru sérstaklega mikilvæg nú. Mikilvægt er að stjórnendur skoði hvaða leiðir eru fyrir hendi til að takast á við núverandi aðstæður á sem uppbyggilegastan hátt. Þar skiptir miklu máli að sem flestir taki höndum saman og stuðli þannig að velferð barna og ungmenna í víðum skilningi.

Víðs vegar um landið hefur þegar verið unnið gott starf til að gera okkur betur kleift að takast á við það ástand sem nú er uppi og hvetur menntamálaráðuneyti til þess að slíkri vinnu verði fram haldið.

Allar samantektirnar voru unnar af Jóhanni Thoroddsen, sálfræðingi, fyrir menntamálaráðuneyti.





Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta