Hoppa yfir valmynd
21. nóvember 2008 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Aðgerðir stjórnvalda á sviði opinberra fjármála

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 20. nóvember 2008 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Samkomulag stjórnvalda við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (IMF) felur í sér þríþætta aðgerðaáætlun sem snýr að endurreisn bankakerfisins, peningastefnu Seðlabankans og opinberum fjármálum.

Hvað varðar aðgerðir á sviði opinberra fjármála er ljóst að skuldir ríkissjóðs aukast stórlega, m.a. vegna endurfjármögnunar viðskiptabankanna og Seðlabanka og innstæðutrygginga. Á móti er áætlað að á næstu árum muni fjármunir endurheimtast með sölu á eignum gömlu bankanna og hugsanlega einkavæðingu ríkisbankanna þegar fram í sækir. Þó er ljóst að á komandi árum þarf að auka aðhald í fjármálum hins opinbera umtalsvert til að endurheimta þá góðu stöðu sem náðst hafði áður en bankakerfið hrundi.

Í samningnum við IMF er miðað við að ríkissjóður og sveitarfélögin í heild verði rekin með miklum halla árið 2009. Þó eru hallanum sett þau mörk að hann verði ekki meiri en svo að hann samræmist sjálfvirkri sveiflujöfnun opinberra fjármála. Þetta er flókið hugtak sem gerir ráð fyrir því að fjárlagahalli fái að aukast vegna hagsveifluþátta s.s. að útgjöld aukist vegna hækkandi atvinnuleysisbóta og að tekjur dragist saman í takt við minkandi efnahagsumsvif. Á hinn bóginn er ekki gert ráð fyrir að hallinn aukist umfram það vegna sértækra aðgerða stjórnvalda. Miðað við vænta hagþróun á komandi ári hefur sjóðurinn metið það sem svo að skera þurfi niður útgjöld eða auka skattheimtu að jafnvirði 2,4% af landsframleiðslu, eða um tæplega 40 ma.kr. frá því sem fram kom í fjárlagafrumvarpi ársins 2009.

Miðað við áætlaðan halla á komandi ársfjórðungum, endurmat sendinefnd IMF jafnframt lánsfjárþörf ríkissjóðs og lagði fyrir lánsfjártakmörk við lok hvers ársfjórðungs. Frekari lánveitingar sjóðsins eru háðar því að ríkissjóður og sveitarfélög verði rekin innan þeirra marka.

Til lengri tíma litið, þegar gert er ráð fyrir að hagvöxtur taki að aukast á ný, munu fjárlög miðast við að skila afgangi á mælikvarða sveifluleiðrétts frumjöfnuðar. Með frumjöfnuði er átt við mismun heildartekna og –gjalda án vaxtagjalda og –tekna. M.ö.o. þegar horft er framhjá kostnaði við að borga niður skuldirnar er metið hverju annar rekstur þarf að skila af sér til að ríkissjóður geti lækkað skuldabyrðina. Aðhaldsstig opinberra fjármála þarf að aukast verulega þau ár til að sá árangur náist sem stefnt er að.

Í þessu sambandi er vert að nefna tvö mikilvæg mál. Þörf verður á að treysta enn frekar langtímaáætlanir í opinberum fjármálum, en í haust voru fjögurra ára rammafjárlög fyrir ríkissjóð lögð fram í fyrsta sinn. Jafnframt verður unnið að því að samræma enn frekar stefnu í fjármálum ríkis og sveitarfélaga, m.a. á grundvelli fjármálareglna. Móta þarf og útfæra nýja stefnu opinberra fjármála varðandi sjálfbærni opinberra skulda. Slík framþróun er jafnframt skilyrði fyrir fjárhagsaðstoðina sem endurskoðuð er við lok hvers ársfjórðungs.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta