Hoppa yfir valmynd
21. nóvember 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Takmarkanir um frjálsa för launafólks

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi í morgun að lagt verði fyrir Alþingi frumvarp Jóhönnu Sigurðardóttur, félags- og tryggingamálaráðherra, um að aðlögunarheimildir aðildarsamnings EES frá 2007 um aðgengi ríkisborgara Búlgaríu og Rúmeníu að íslenskum vinnumarkaði verði áfram nýttar fram til 1. janúar 2012. Frumvarpið er lagt fram í ljósi þeirrar óvissu sem ríkir um stöðu og þróun á innlendum vinnumarkaði á næstu mánuðum vegna þrenginga í efnahagslífi þjóðarinnar.

Atvinnuleysi hefur aukist hratt undanfarnar vikur og mældist 1,9% í október 2008. Miðað við skráningu fólks á atvinnuleysisskrá Vinnumálastofnunar fyrstu daga nóvembermánuðar má gera ráð fyrir að atvinnuleysi verði 4,4% um mánaðamótin nóvember og desember 2008 og verði nálægt 8% um mánaðamótin janúar og febrúar 2009. Aðstæður hafa því breyst mjög hratt á innlendum vinnumarkaði og erfitt að meta hversu langt er að bíða þess að atvinnuhorfur batni á nýjan leik. Þótti því ástæða til að grípa til þessara aðgerða.

Búlgarar og Rúmenar sem vilja koma hingað til lands til starfa þurfa því áfram að sækja um tímabundin dvalar- og atvinnuleyfi samkvæmt lögum um útlendinga og lögum um atvinnuréttindi útlendinga á sama hátt og áður. Launamenn frá þessum ríkjum eiga þó ákveðinn forgang umfram ríkisborgara ríkja utan Evrópska efnahagssvæðisins að því er varðar aðgengi að íslenskum vinnumarkaði á tímabilinu til 1. janúar 2012.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta