Breyttar horfur í alþjóðlegum efnahagsmálum
Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 20. nóvember 2008 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur nýlega endurnýjað spá sína um horfur í alþjóðlegum efnahagsmálum.
Venjulega gerir sjóðurinn slíkar spár tvisvar á ári, að vori og hausti, en síðasta spá hans kom út 13. október síðastliðnn. Um mánuði síðar, brá sjóðurinn út af venju sinni og endurskoðaði spá sína þar sem stefnir í að niðursveiflan í heimsbúskapnum verði mun meiri en áður var talið. Hagvöxtur í heiminum er talinn ná aðeins 2,2% 2009, um 0,8% minna en í októberspánni, borið saman við 3,8% vöxt í ár og 5% 2007. Þar af er gert ráð fyrir samdrætti í hinum þróuðu ríkjum á næsta ári, og yrði það í fyrsta sinn á heilsársgrundvelli frá stríðslokum. Þá spáir sjóðurinn að hægja muni umtalsvert á hagvexti í nýmarkaðsríkjum en að hann verði um 5% árið 2009.
Samdrátturinn í þróuðum ríkjum á næsta ári, um 0,3%, er 0,8% lægri en spáð var fyrir um mánuði síðan, en það endurspeglar mikinn samdrátt í efnahagsframvindu stærstu iðnríkjanna. Þessi samdráttur er í aðalatriðum sambærilegur við hagsveifluferilinn 1975 og 1982, en talið er að niðursveiflan nú taki ekki enda fyrr en seint á næsta ári.
Vöxtur nýmarkaðsríkja verður líklega um 1% minni 2009 en spáð var fyrir mánuði, en samt er vöxtur þeirra meiri en í nokkrum fyrri heimsniðursveiflum (t.d. 1990, 1998 og 2001). Þar sem verðlag á ýmsum hrávörum hefur lækkað talsvert á undanförnum mánuðum, hefur sú lækkun mest áhrif í þróunarlöndum sem flytja mikið út af slíkum vörum. Samdráttaráhrifin eru hvað minnst í Austur-Asíu, þ.m.t. í Kína, en þau lönd hagnast á bættum viðskiptakjörum vegna fallandi hrávöruverðs.
Hið snögga fall í verði hrávara er bein afleiðing af minnkandi heimseftirspurn. Olíuverð hefur lækkað um rúmlega 50% frá hámarki sínu og er nú aftur komið niður á það verð sem ríkti snemma á síðasta ári. Grunnspá sjóðsins gerir ráð fyrir 68 dollara meðalolíuverði fyrir 2009. Versta vandamálið nú er fjármálakreppan, sem undið hefur enn frekar upp á sig undanfarnar vikur. Skuldatryggingarálög hafa hækkað upp úr öllu valdi, hlutabréfavísitölur hríðfallið og gengi margra gjaldmiðla í þróunarlöndum hefur lækkað hratt. Þótt mörg lönd hafi nú þegar beitt róttækum aðgerðum til að rétta við fjármagnsmarkaði sína, eru allar líkur á að staða fjármagnsmarkaða verði áfram höfuðdragbíturinn á endurbatann í heiminum. Í ljósi þessarar óvissu, leggur sjóðurinn áherslu á að stærstu þjóðir heims verði að taka höndum saman til að vinna bug á niðursveiflunni. Ekki dugi að hvert land geri það hvert og eitt fyrir sig. Stærri iðnríkin hafa þegar tekið vel til í peningamálum, en aukinn hvati gegnum ríkisfjármál er nú mjög við hæfi þar sem verðbólguhættan er í lágmarki.