Drög að reglugerð um úttektir á öryggi loftfara til umsagnar
Drög að reglugerð um breytingu á reglugerð um úttektir á öryggi loftfara er nú til umsagnar hjá samgönguráðuneytinu. Hagsmunaaðilar geta skilað inn umsögnum á netfangið [email protected] í síðasta lagi 5. desember næstkomandi.
Með reglugerðinni er innleidd reglugerð EB nr. 351/2008, frá 16. apríl 2008, varðandi innleiðingu tilskipunar EB nr. 2004/36 um forgangsröðun hlaðskoðana flugvéla sem nota flugvelli Bandalagsins.
Samtök flugmálastjórna í Evrópu, ECAC settu árið 1998 á laggirnar svonefnda SAFA-áætlun (Safety assessment of foreign aircraft). Í henni fólst að flugmálastjórnir samtakanna sammæltust um að gera hlaðúttektir á flugrekendum sem áttu viðkomu í ríkjunum til að athuga hvort loftfarið og áhöfn fullnægðu lágmarkskröfum í viðaukum Chicago-samningsins. Áætlunin náði bæði til flugrekenda innan ECAC og utan þess. Flugmálastjórn Íslands hefur tekið þátt í SAFA-áætluninni frá upphafi.
Flugöryggissamtökum Evrópu, JAA, var falin samhæfing meðal aðildarríkja og rekstur gagngrunns sem geymir allar úttektarskýrslur sem gerðar eru meðal flugmálastjórna ríkjanna. Tilgangur úttektanna er að auka öryggi og veita aðildarríkjunum upplýsingar um flugrekendur sem ekki fullnægja lágmarkskröfum. Markviss eftirfylgd er með úttektum. Evrópusambandið hefur nú tekið SAFA-áætlunina uppá arma sína og með tilskipun 2004/36 lögfest áætlunina. Með reglugerð framkvæmdastjórnarinnar nr. 768/2006 er hlutverk JAA fært til Flugöryggisstofnunar Evrópu.
Í reglugerð um úttektir á öryggi loftfara frá þriðju ríkjum er mælt er fyrir um verklag við hlaðskoðanir, söfnun, miðlun og úrvinnslu upplýsinga, og upplýsingaskipti. Leiði úttekt í ljós annmarka getur Flugmálastjórn Íslands mælt fyrir um flugbann takist ekki að lagfæra annmarka fyrir brottför.
Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar nr. 351/2008 mælir frekar fyrir um forgangsröðun hlaðskoðana og miðlun upplýsinga um forgangsröðun skoðana frá Flugöryggisstofnun Evrópu til EES-ríkjanna.