Hoppa yfir valmynd
25. nóvember 2008 Utanríkisráðuneytið

Viðskiptaráðherra stýrir ráðherrafundi EFTA

Bjorgvin_G._Sigurdsson_vidskiptaradherra_undirritar_friverslunarsamning_EFTA-rikjanna_vid_Kolumbiu
Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra undirritar fríverslunarsamning EFTA-ríkjanna við Kólumbiu

Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra stýrði í dag ráðherrafundi EFTA í Genf í fjarveru Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur utanríkisráðherra. Meginviðfangsefni fundarins var staða og stefna í fríverslunarviðræðum EFTA-ríkjanna. Í tengslum við ráðherrafundinn var fríverslunarsamningur milli EFTA-ríkjanna og Kólumbíu undirritaður. Vonast er til að samningurinn geti tekið gildi á árinu 2009.

Á fundinum lýstu ráðherrarnir því yfir að EFTA-ríkin væru reiðubúin til að hefja á seinni hluta næsta árs viðræður um fríverslunarsamning við Rússland. Ákveðið var á fundinum að hefja fríverslunarviðræður við Úkraínu, Albaníu og Serbíu á næsta ári. Stefnt er að því að taka að nýju upp samningaviðræður við Taíland þegar aðstæður leyfa.

Ráðherrarnir lýstu ánægju með lok fríverslunarviðræðna við Perú og með upphaf viðræðna við Indland. Lögð var áhersla á mikilvægi þess að styrkja viðskiptatengslin við Indverja. Þá lýstu ráðherrarnir áhuga á að hefja fríverslunarviðræður við Indónesíu og að auka samskiptin við Malasíu á sviði viðskipta.

Ráðherrarnir ræddu stöðuna í Doha-viðræðum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) og lýstu stuðningi við að reyna ætti til þrautar að ná samningum í viðræðunum. Ráðherrarnir ítrekuðu mikilvægi alþjóðaviðskiptakerfisins fyrir efnahag og afkomu almennings í öllum ríkjum heims. Mikilvægt sé að ríki forðist verndarhyggju í alþjóðaviðskiptum við núverandi aðstæður í fjármála- og efnahagslífi.

Að loknum ráðherrafundi tók við fundur ráðherranna með þingmannanefnd EFTA. Skipst var á skoðunum um gerð fríverslunarsamninga og EES-samstarfið.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta