Hoppa yfir valmynd
28. nóvember 2008 Matvælaráðuneytið

Breytingar á lögum um gjaldeyrismál

           

Alþingi hefur í dag samþykkt breytingar á lögum um gjaldeyrismál nr. 87/1992 sem byggja á viljayfirlýsingu íslenskra stjórnvalda til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins 3. nóvember s.l. Sjá feril málsins á Alþingi.

Undanfarnar vikur hafa gjaldeyrisviðskipti verið takmörkuð með sérstökum tilmælum Seðlabanka Íslands vegna skorts á gjaldeyri. Nokkur hætta er á, að óbreyttu, að mikið fjármagnsflæði verði úr landi um leið og skilyrði til gjaldeyrisviðskipta batna sem myndi leiða til verulegrar viðbótarlækkunar á gengi krónunnar. Vegna skuldsetningar heimila og fyrirtækja getur slíkt valdið stórskaða fyrir efnahag þjóðarinnar og aukið á samdráttinn í efnahagslífinu.

 Með breytingu á lögum um gjaldeyrismál er Seðlabanka Íslands veitt tímabundin heimild til að takmarka tilteknar fjármagnshreyfingar sem ekki snerta viðskipti með vörur og þjónustu. Um leið er þó tekið mikilvægt skref til að aflétta hömlum á alþjóðaviðskiptum með vörur og þjónustu sem í raun hafa gilt undanfarnar vikur.

 Lögin eru nauðsynleg fyrsta aðgerð til að koma á eðlilegum gjaldeyrisviðskiptum á Íslandi á ný og byggja undir stöðugt gengi krónunnar. Ennfremur er markmið laganna að lágmarka líkur á frekari gengislækkun og óstöðugleika. Heimild Seðlabanka Íslands er tímabundin og nær gildistími hennar til sama tíma og efnahagsáætlun stjórnvalda og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins. Þess er vænst að hömlur á fjármagnshreyfingar gildi í sem skemmstan tíma.

 Seðlabanki Íslands mun birta nýjar reglur um gjaldeyrismál, á grundvelli endurskoðaðra laga, strax í dag.

´

Viðskiptaráðuneytinu, 28. nóvember 2008

 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta