Jafnlaunastefna á almennum vinnumarkaði
Starfshópur um framkvæmd jafnlaunastefnu á almennum vinnumarkaði, svokallaður jafnlaunahópur, sem Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, skipaði í október 2007 undir forystu Jóns Sigurðssonar hefur skilað ráðherra skýrslu um verkefnið með ábendingum um þrjár leiðir til að vinna að launajafnrétti kynja.
Sem grunn að vinnu sinni fékk hópurinn Hagfræðistofnun Háskóla Íslands til að taka saman yfirlit yfir niðurstöður nýlegra rannsókna á launamun kynjanna, bæði á almennum markaði og hjá hinu opinbera. Niðurstaðan var sú að óútskýrður launamunur kynja á almennum vinnumarkaði væri 15% konum í óhag en hefði farið hægt minnkandi á síðustu árum.
Jafnlaunahópurinn lagði mesta áherslu á að kanna hvernig laun eru ákveðin og telur áhrifaríkast að breyta vinnuaðferðum við launamyndun og launaþróun innan fyrirtækja. Bent er á þrjár leiðir í þessu skyni sem eru notkun starfsmats, launavottun og notkun vegvísis um launasetningu sem kynntur er í skýrslu hópsins.
Starfsmati hefur verið beitt við launasetningu hjá sveitarfélögum hér á landi í allmörg ár. Helsti kostur þess er að það er viðurkennd leið til að ákvarða sömu grunnlaun fyrir ólík störf sem metin eru sambærileg eða jafnverðmæt. Ofan á starfsmat er unnt að byggja mat á einstaklingsbundinni hæfni, frammistöðu eða árangri sem ræður þá einstaklingsbundnum viðbótarlaunum.
Vottun byggist á því að óháður faggiltur aðili staðfesti að launagreiðslur og mannauðsstjórnun fyrirtækis sé í samræmi við viðurkenndan launajafnréttisstaðal. Gengið er út frá því að fyrirtæki sækist eftir slíkum gæðastimpli til þess að standa sem best að vígi í samkeppni um hæft starfsfólk og auka viðskiptavild sína. Ákvæði er um mótun þessarar leiðar er í nýjum jafnréttislögum og er unnið að undirbúningi hennar, meðal annars með smíði launajafnréttisstaðla.
Vegvísir um jafnlaunaúttektir í fyrirtækjum og stofnunum er nokkurs konar handbók sem byggist á hugmyndum mannauðsstjóra í nokkrum stærstu fyrirtækjum landsins. Þar eru kynntar einfaldar en árangursríkar leiðir til að auka jafnrétti í launamálum sem sneiða hjá þeim umfangsmikla formbúningi sem fylgir starfsmats- og vottunarleiðunum. Mannauðsstjórarnir telja forsendu árangurs að æðstu stjórnendur hvers fyrirtækis láti sig launajafnrétti varða og beiti sér fyrir aðgerðum að því marki. Með vegvísinum fylgir listi yfir tæplega fimmtíu fyrirtæki sem hafa kynnt sér vegvísinn og lýst sig reiðubúin til þess að fara þegar í stað að vinna samkvæmt honum.
Niðurstaða jafnlaunahópsins er sú að starfsmat, vottunarleiðin og notkun vegvísis séu náskyldar aðferðir sem útiloki ekki hver aðra. Eðlilegast sé að fyrirtæki velji þá leið sem þau telja best henta aðstæðum sínum til að stuðla að launajafnrétti kynja. Þá leggur hópurinn ríka áherslu á að launamyndunin sé skoðuð reglulega innan hvers fyrirtækis og því þurfi regluleg jafnlaunaúttekt innan hvers fyrirtækis að vera jafnsjálfsögð og vöktun annarra lykiltalna í rekstri þess.
Í skýrslu jafnlaunahópsins er gerð grein fyrir þeim þremur aðferðum sem hópurinn bendir á sem leið til að vinna að launajafnrétti kynja.
Skýrsla starfshóps um jafnlaunastefnu á almennum vinnumarkaði (PDF, 1.011 KB)