Nr. 33/2008 - 26. þing Sjómannasambands Íslands
Fréttatilkynning frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti
Nr. 33/2008
Ræða ráðherra á 26. þingi Sjómannasambands Íslands
Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, fjallaði í ræðu sinni á þingi Sjómannasambands Íslands um efnahagserfiðleika þjóðarbúsins, vanda í sjávarútvegi og mikilvægi nýsköpunar þar sem tveir styrktarsjóðir á vegum ráðuneytisins gegna mjög þýðingarmiklu hlutverki.
Ráðherra gerði grein fyrir að á sex árum hefðu framlög nær fimmfaldast til AVS-rannsóknasjóðsins og ráðstöfunarfé samkeppnisdeildar Verkefnasjóðs sjávarútvegsins hefði þrefaldast frá því hún var sett á laggirnar fyrir tveimur árum. Samtals nemi úthlutanir úr þessum sjóðum við árslok 2009, 1.750 milljónum króna. Þar sem styrkþegar þurfi að leggja annað eins að mörkum sjálfir þýði þetta að sjóðirnir hafi stuðlað að nýsköpun og þróun í sjávarútvegi fyrir a.m.k. 3,5 milljarða króna.
„Fljótlega eftir að ég tók til starfa í ráðuneytinu kom ég á laggirnar samkeppnisdeild Verkefnasjóðs sjávarútvegsins til að stuðla að fjölbreyttari sjávarrannsóknum um allt land. Með þessu kom ég til móts við þau sjónarmið að ástæða væri til að auka fjölbreytni hafrannsókna og hleypa fleirum að þeim en áður hafði verið, enda mjög í anda þess sem ég hafði áður talað fyrir. Í viðleitni til að ná meiri árangri við fiskveiðiráðgjöf þarf að skoða málin frá sem flestum hliðum. Þetta er ekki sagt til að gera lítið úr því sem hefur verið gert. Öðru nær. Þetta er hins vegar aðferð til að auka umfang rannsókna og það hefur tekist. Vegna fyrirsjáanlegs samdráttar í þorskafla á fiskveiðiárinu 2007-2008 ákvað ég á síðasta ári að tvöfalda framlag til samkeppnisdeildarinnar. Þessari hækkun, úr 25 í 50 milljónir króna var að öðru jöfnu varið til verkefna á sviði þorskrannsókna. [...] Á þessu hausti ákvað ég að auka enn framlög til samkeppnisdeildar sjóðsins um 25 milljónir og er þeirri aukningu ætlað að hækka styrki til styttri, hagnýtra verkefna. Sú ákvörðun var ekki síst tekin í ljósi þess að nú ríður á að styðja við hugmyndir eru líklegar til að skila árangri fljótt og geta þannig orðið lóð á vogarskálarnar hvað varðar atvinnusköpun og fjölbreytni í atvinnulífinu.“
AVS-sjóðurinn, sem stendur fyrir Aukið virði sjávarfangs, var stofnaður árið 2003 og fékk þá 74 milljónir króna til ráðstöfunar. Á þessu ári er upphæðin 354 m.kr. Þar af fara a.m.k. 25 m.kr. til kynbóta í þorskeldi, 10 m.kr. í sérstakt markaðsátak vegna bleikju og rúmar 19 m.kr. í eldi sjávardýra. Innan skamms verður auglýst eftir styrkjum í AVS-sjóðinn fyrir næsta ár og líkt og í Verkefnasjóðnum verður lögð sérstök áhersla á að styrkja stutt og hnitmiðuð verkefni sem skila fljótt og vel hagnýtum niðurstöðum og skapa verðmæti.
Einar Kristinn fjallaði einnig sérstaklega um þrennt sem á sjávarútveginum hefur dunið á skömmum tíma og valdið miklum erfiðleikum. Í fyrsta lagi skerðing á þorskafla á síðasta ári sem reyndar hafi valdið minni búsifjum en margur hugði. Í öðru lagi sú efnahagsstaða sem nú er uppi og í þriðja lagi nýuppgötvuð sýking í íslensku sumargotssíldinni. „Eitt er auðvitað að standa frammi fyrir mjög umtalsverðu tekjutapi á þessari vertíð, sem virðist vera orðin óhagganleg staðreynd. Hitt er auðvitað miklu alvarlegra ef þessi sýking í síldinni skaðar stofninn sjálfan. Síldarstofninn hefur byggst upp á undanförnum árum. Við höfum fylgt einstaklega varkárri nýtingarstefnu, sem hefur gefið okkur færi á að auka aflaheimildir hin síðari ár. Sá 150 þúsund tonna síldarafli sem við drógum úr sjó á síðustu vertíð og ætlum okkur að veiða á þessari vertíð er til marks um vel heppnaða fiskveiðistjórnun sem byggt hefur á vandaðri ráðgjöf. Þeim mun dapurlegra er að standa nú frammi fyrir þeirri óvissu sem sýking í síldinni hefur skapað,“ sagði Einar Kristinn Guðfinnsson á þingi Sjómannasambands Íslands sem hófst á Grand Hóteli í dag.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu,
4. desember 2008