Hoppa yfir valmynd
5. desember 2008 Utanríkisráðuneytið

EXPO 2010 : Heimssýningin í Shanghai í Kína

Framkvæmdasýsla ríkisins auglýsir nú eftir tillögum um útfærslu á innanhússkipulagi og sýningu í skála Íslands á Heimssýningunni Expo 2010 sem haldin verður frá maí til október 2010. Þátttaka Íslands er samstarfsverkefni fyrirtækja og hins opinbera.

Þema sýningarinnar er borgarsamfélagið, undir einkunnarorðunum „Betri borg, betra líf". Markmiðið með þátttöku Íslands er að vekja athygli á íslenskri orku og orkunýtingu, mannauði og menningu. Jafnhliða verður leitast við að skapa íslenskum fyrirtækjum viðskiptatækifæri. Þema Íslands er „Pure energy, healthy living“.

Heimssýningin er haldin á fimm ára fresti með þátttöku flestra ríkja heims og að þessu sinni er gert ráð fyrir að um 400.000 manns sæki sýninguna daglega. Heimssýningin var síðast haldin í Aichi í Japan árið 2005. Þar voru Norðurlöndin með sameiginlega sýningu. Að þessu sinni munu Norðurlöndin eiga náið samstarf en hafa þó hvert sinn skála sem standa munu hlið við hlið á sýningarsvæðinu.

Verkefnið mun lúta framkvæmdastjórn undir forystu Péturs Ásgeirssonar, skrifstofustjóra í utanríkisráðuneytinu, skipaðri fulltrúum ráðuneytisins, Útflutningsráðs og Framkvæmdasýslu ríkisins. Framkvæmdastjórnin hefur samráðshóp sér til fulltingis sem í sitja fulltrúar stjórnvalda, fyrirtækja og hagsmunaaðila. Hreini Pálssyni, sendiráðsritara í utanríkisráðuneytinu, hefur verið falið starf framkvæmdastjóra verkefnisins. Gunnar Snorri Gunnarsson, sendiherra Íslands í Peking, verður tengiliður íslenskra stjórnvalda gagnvart kínverskum skipuleggjendum.

Verkkaupi er utanríkisráðuneytið. Umsjón með verkefninu hjá Framkvæmdasýsla ríkisins hefur Óskar Valdimarsson forstjóri.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta