Utanríkisráðherra ávarpar ráðherrafund ÖSE
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, tók í gær og í dag þátt í sextánda ráðherrafundi Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, ÖSE, sem fram fór í Helsinki í Finnlandi. Um 50 utanríkisráðherrar sóttu fundinn að þessu sinni.
Jafnframt átti utanríkisráðherra sérstaka tvíhliða fundi með starfssystkinum frá Þýskalandi, Frakklandi, Spáni, Bretlandi, Svíþjóð, Danmörku og Hollandi. Ísland á góða stuðningsmenn í hópi utanríkisráðherra, skilningur er á stöðu Íslands og vilji til að greiða fyrir lausn útistandandi mála gagnvart vinaþjóð.
Í ræðu Ingibjargar Sólrúnar á ráðherrafundinum kom fram að ÖSE hefði gegnt mikilvægu hlutverki þegar átök hófust í Georgíu síðsumars. Ráðherra áréttaði mikilvægi þess að eftirlitsmenn ÖSE þar hefðu einnig fullan aðgang að landsvæðum Suður-Ossetíu og Abkasíu og að ÖSE reyndi að leysa þær deilur sem enn eru óleystar í Evrópu. Ráðherra sagði að öryggi til langs tíma væri best tryggt með virðingu fyrir lýðræði, réttarríki og mannréttindum. Lagði hún áherslu á mikilvægi þess að mannréttindi væru virt í baráttunni gegn hryðjuverkum og að lögum gegn hryðjuverkum væri beitt af varúð og nákvæmni.
Ávarp ráðherra