Vöruskiptin í nóvember 2008
Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 4. desember 2008 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands nam verðmæti innfluttrar vöru í nóvember 40,8 ma. kr. sem er nokkuð meiri innflutningur en í október þegar hann nam 36,3 ma.kr.
Verðmæti útflutnings nam 43,2 ma.kr. sem er minni útflutningur en í september og október þrátt fyrir umtalsverða gengislækkun krónunnar. Vöruskiptaafgangur við útlönd í nóvember nam því 2,4 ma.kr. sem er nokkuð minni afgangur en í október þegar hann nam 10,9 ma.kr. Í nóvember var meðalgengisvísitala krónunnar 229 stig en 199 stig í október sem samsvarar um 13% veikingu á gengi krónunnar.
Það sem helst skýrir aukinn innflutning í nóvember er mikill innflutningur á áloxíði en hann meira en tvöfaldast á milli mánaða. Aukning er einnig í verðmæti innfluttra mat- og drykkjarvara en verðmæti innfluttra nauðsynjavara eins og matvæla eykst jafnan þegar gengi krónunnar veikist. Verðmæti varanlegra og hálf-varanlegra neysluvara eykst einnig í nóvember en þessi innflutningur er jafnan sterkur í þeim mánuði þegar verslunarmenn eru að undirbúa mesta annatíma ársins.
Það sem helst skýrir minni útflutning í nóvember er samdráttur í verðmæti útflutts áls miðað við september og október en heimsmarkaðsverð á áli hefur verið að lækka jafnt og þétt frá því í sumar. Verðmæti útfluttra sjávarafurða dregst einnig lítillega saman frá því í október þegar það náði sögulegu hámarki.
Föstudaginn 28. nóvember birti Hagstofa Íslands endurskoðaðar tölur fyrir utanríkisviðskiptin fyrstu tíu mánuði ársins. Samkvæmt þeim er útflutningur í september meiri en áður var talið vegna töluverðs útflutnings flugvéla en upplýsingar um verslun með flugvélar berast Hagstofunni jafnan seint. Afgangur á vöruskiptum var því meiri í september en áður var talið eða sem nam 7,8 ma.kr. Í október var vöruskiptaafgangurinn 10,9 ma.kr. en lítil verslun með skip og flugvélar er enn sem komið er skráð í október.