Hoppa yfir valmynd
11. desember 2008 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Úttekt á Póst- og fjarskiptastofnun

Lokið er fyrir nokkru úttekt ráðgjafafyrirtækisins PriceWaterhouseCoopers á starfsemi Póst- og fjarskiptastofnunar sem gerð var að beiðni samgönguráðuneytisins á síðasta ári. Í skýrslu PWC var bent á nokkra annmarka í starfsemi PFS og hefur stofnunin síðan unnið að ýmsum aðgerðum sem ráðuneytið telur til bóta.

Úttekt á PFS - forsíða skýrslu
Úttekt á PFS - forsíða skýrslu

Samgönguráðuneytið væntir þess að stofnunin haldi áfram að vinna að því að bæta starfsemina og nýti meðal annars til þess niðurstöður skýrslu PWC og það tækifæri sem hún felur í sér til þess að styrkja betur innri stoðir og um leið árangur stofnunarinnar.

Meðal athugasemda í úttektinni var að bæta yrði yfirsýn yfir fjármál stofnunarinnar og tók ráðuneytið undir þær ábendingar. Þá telur ráðuneytið mikilvægt að tryggja að starfsmenn hafi þekkingu og getu til að nýta sér þau fjárhagskerfi sem stofnunin notar. Við þessu hefur verið brugðist.

Samgönguráðuneytið telur að stofnunin hafi sérstöðu meðal annarra ríkisstofnana, þar sem henni er ætlað að standa að fullu straum af kostnaði við starfsemi sína. Mikilvægt er að kostnaðarbókhald sé notað í starfsemi stofnunarinnar, enda stuðla slík vinnubrögð að auknu gagnsæi gjaldtöku. Þetta er einnig mikilvægt með tilliti til lögbundinna sjónarmiða um kostnaðartengingu gjaldskrár og sérgreiningu annars kostnaðar í starfsemi stofnunarinnar að því marki sem það er mögulegt.

Ráðuneytið telur að veruleg breyting hafi orðið á fjármögnun stofnunarinnar með lagabreytingunni þar sem teknir voru upp nýir skattar í stað gjalda. Það breytir þó ekki nauðsyn á sérgreiningu kostnaðar þar sem gjaldskráin stendur enn undir nokkrum hluta af starfsemi stofnunarinnar.

Í ljósi gagnrýni á stöðu starfsmannamála bindur ráðuneytið vonir við að auknar áherslur stofnunarinnar á starfsmannamál, meðal annars með ráðningu mannauðs- og gæðastjóra, séu til þess fallnar að auka starfsánægju og þar með bæta árangur stofnunarinnar.

Líta verður til afmörkunar í lögum um stofnunina sem fyrirmæla til hennar um að gæta þess að fella verkefni og markmiðssetningu undir hið lögbundna hlutverk. Skýrsla PWC hefur að geyma athugasemdir óháðs aðila um þá þætti sem hann telur betur mega fara í starfsemi stofnunarinnar. Ráðuneytið telur athugasemdir og ábendingar óháðra aðila vera grundvöll til úrbóta, lagfæringa eða endurskoðunar á starfsemi stofnunarinnar enda var úttektin liður í eftirlitshlutverki ráðuneytisins með einni undirstofnun sinni. Ráðuneytið telur þær aðgerðir til bóta sem stofnunin hefur ráðist í á grundvelli athugasemda sem fram koma í úttektarskýrslu PWC.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta