Frítekjumark örorkulífeyrisþega áfram 100.000 krónur
Samþykkt var á Alþingi í dag frumvarp Jóhönnu Sigurðardóttur, félags- og tryggingamálaráðherra, sem felur í sér að ákvæði um 100.000 króna frítekjumark á atvinnutekjur örorku- og endurhæfingarlífeyris mun gilda áfram þar til nýtt örorkumatskerfi hefur verið tekið í notkun. Að óbreyttu hefði ákvæðið fallið úr gildi 1. janúar næstkomandi.
Þann 1. júlí í sumar kom til framkvæmda bráðabirðaákvæði í lögum um almannatryggingar þar sem örorkulífeyrisþegum var gert kleift að velja á milli þess að hafa 100.000 króna frítekjumark á mánuði vegna atvinnutekna eða telja 60% af atvinnutekjum til tekna við útreikning tekjutryggingar. Gildistími ákvæðisins var til 1. janúar næstkomandi, en gert var ráð fyrir að þá yrði komið til framkvæmda nýtt örorkumatskerfi og nýjar viðmiðunarreglur sem kæmu í stað frítekjumarksins.
Nú er ljóst að ekki tekst að ljúka vinnu við endurskoðun örorkumatskerfisins á þeim tíma sem áætlað var og eru lög um framlengdan gildistíma frítekjumarksins sett í ljósi þess. Öryrkjabandalag Íslands hefur lagt mikla áherslu á að núgildandi frítekjumark haldi gildi sínu þar til nýtt örorkumatskerfi verður tekið í notkun. Samkvæmt upplýsingum Tryggingastofnunar ríkisins fá um 4.700 örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar greiddar atvinnutekjur og nýtist frítekjumarkið þeim öllum til hærri bótagreiðslna en ella.