Hoppa yfir valmynd
19. desember 2008 Dómsmálaráðuneytið

Dómsmálaráðherra kynnir tillögur um skuldaaðlögun

Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra, hefur kynnt í ríkisstjórn tillögur um skuldaaðlögun, það er breytingar á nauðasamningakafla gjaldþrotaskiptalaga. Í tillögum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, sem hafa verið mótaðar af réttarfarsnefnd í samvinnu við viðskiptaráðuneyti, félags- og tryggingamálaráðuneyti og tollayfirvöld felst að einstaklingur sem er ófær um að standa í skilum með skuldbindingar sínar og ljóst er að svo verði um fyrirsjáanlega framtíð geti leitað nauðasamnings um skuldaaðlögun við kröfuhafa sína með aðstoð umsjónarmanns. Er hér um að ræða úrræði fyrir einstaklinga sem ekki hafa stundað atvinnurekstur undanfarin þrjú ár.

Gert er ráð fyrir að beitt verði gildandi reglum um nauðasamninga með frávikum sem einfalda ferli við gerð slíkra samninga frá því sem nú er. Skuldaaðlögun tekur ekki til skulda sem tryggðar eru með veði í eignum skuldarans. Með skuldaaðlögun eru skuldir viðkomandi einstaklings lagaðar að greiðslugetu hans, t.d. má kveða á um algera eftirgjöf samningskrafna, hlutfallslega lækkun þeirra eða gjaldfrest á þeim, svo eitthvað sé nefnt.

Í tillögunum er gert ráð fyrir, að skuldara bjóðist endurgjaldslaus aðstoð við gerð beiðni og fylgigagna til að geta nýtt sér þetta nýja úrræði. Lagt er til að Ráðgjafarstofu heimilanna eða öðrum aðila verði falið að veita þessa aðstoð og einnig við að gera nauðsynlega greiðsluáætlun. Fallist dómari á beiðni um skuldaaðlögun er lagt til, að hann feli sérstökum umsjónarmanni að taka að sér gerð samninga og samskipti við kröfuhafa og verði kostnaður við það starf greiddur úr ríkissjóði.

Gert er ráð fyrir að tillögurnar verði lagðar fyrir alþingi sem frumvarp um breytingu á gjaldþrotaskiptalögum í byrjun næsta árs.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum