IMF sendinefnd í heimsókn - Allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar á áætlun
Sex manna sendinefnd frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum (AGS) hefur verið hér á landi undanfarna fjóra daga til að fara yfir þróun efnahagsmála á Íslandi, fjármála ríkisins, peningamála og endurskipulagningu bankakerfisins. Nefndin var undir forystu Pouls Thomsens, aðstoðarframkvæmdastjóra Evrópudeildar sjóðsins, en hann hefur farið með málefni Íslands.
Þessa daga átti nefndin fundi með fjölmörgum aðilum, ráðherrum, embættismönnum, starfsmönnum Seðlabanka Íslands, fulltrúum hagsmunasamtaka, háskólamönnum, blaðamönnum og fleirum.
Í yfirlýsingu sem Poul Thomsen gaf út fyrir hönd sendinefndarinnar og birt er á heimasíðu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (www.imf.org/external/np/sec/pr/2008/pr08331.htm) lýsir nefndin yfir ánægju með hvernig mál hafa þróast á Íslandi á undanförnum vikum. Ljóst er að allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum, fjármálum ríkisins og gjaldeyrismálum eru í fullu samræmi við þá áætlun sem ríkisstjórnin og AGS hafa sameinast um. Mikilvægar ákvarðanir hafa verið teknar er varða fjárlög ríkisins, fleytingu krónunnar og endurskipulagningu bankakerfisins,, m.a. með ráðningu erlendra sérfræðinga og staðfestir athugun nefndar AGS að þær ákvarðanir hafa skilað sér vel og að íslenska ríkisstjórnin er á réttri leið.
Sendinefnd frá AGS er væntanleg til landsins aftur snemma í febrúar og þá fer fram fyrsta formlega endurskoðun áætlunar sjóðsins og íslensku ríkisstjórnarinnar.