Tímamót hjá blindum og sjónskertum
Alþingi hefur samþykkt frumvarp Jóhönnu Sigurðardóttur, félags- og tryggingamálaráðherra, um stofnun þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga. Lögin taka gildi 1. janúar næstkomandi. Með þessu færist ábyrgð á málefnum þessa hóps frá heilbrigðisráðuneytinu til félags- og tryggingamálaráðuneytisins. Sjónstöð Íslands verður lögð niður samhliða því að ný stofnun tekur til starfa. Nýja stofnunin yfirtekur verkefni Sjónstöðvarinnar önnur en þau sem teljast til heilbrigðisþjónustu, auk þess sem til hennar flytjast tiltekin verkefni sem nú eru á hendi Blindrabókasafns Íslands.
Meginmarkmið laganna er að efla og bæta þjónustu við blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga á sviði hæfingar og endurhæfingar til að stuðla að sjálfstæði og virkri þátttöku í samfélaginu jafnframt því að veita ráðgjöf og auka þekkingu og skilning á aðstæðum blindra, sjónskertra og daufblindra. Áhersla er lögð á að gera þjónustuna heildstæðari þannig að hún sé sem mest aðgengileg á einum stað og að þar sé jafnframt tryggð sem best yfirsýn yfir aðstæður hópsins.
Í lögunum felst það nýmæli að réttur daufblindra til þjónustu á grundvelli fötlunar sinnar er sérstaklega tilgreindur. Þannig er í fyrsta skiptið staðfest í lögum að daufblinda er sérstök fötlun en ekki samsetning tvenns konar fötlunar, þ.e. sjón- og heyrnarskerðingar.
Lög um þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklingaFerill málsins á Alþingi