Kvöldskattur
Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 18. desember 2008 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Nú, þegar þrengir að í búskap heimilanna, er vert að hyggja að jólahaldi íslenskra heimila á fyrri tímum þegar gjafir voru ekki jafn ríkur hluti af hátíðinni og áherslan í meira mæli á mannkærleika þann sem býr í jólaboðskapnum en einnig góðan mat.
Þannig segir frá því í bók Jónasar Jónassonar frá Hrafnagili um íslenska þjóðhætti að haldið var upp á byrjun aðventunnar – sem þá hét jólaföstuinngangur – með ,,kvöldskattinum” þar sem heimilisfólki var í eitt sinn skammtað vel á diska af öllu því besta sem fannst í búrinu og var skammturinn slíkur að hann átti að duga sem viðbit handa heimilisfólkinu í nokkra daga.
Kvöldskatturinn var gefinn eitt kvöldið í fyrstu viku jólaföstunnar og ,,var þá ekki eymt í skammtinn, þó að kort væri annars vant að skammta”. Þetta gerðist þannig að eitt kvöldið fór húsfreyja fram í búr og fór að skammta heimilisfólki sínu á stór föt eða diska allt hið besta sem búið átti til: hangiket, magál, sperðil, pottbrauð og flatbrauð og vel við af floti og sméri.
Allt fór þetta fram með mestu leynd og þótti mest til koma ef enginn vissi neitt fyrr en ílátin komu inn úr baðstofudyrunum. Var þá rokkum, snældum og prjónum varpað frá sér í snatri og síðan sest að snæðingi.
Vefritið óskar lesendum sínum gleðilegra jóla og farsæls komandi árs. Næsta vefrit kemur út 8. janúar 2009.