Styrkir úr þróunarsjóði innflytjendamála
Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, hefur úthlutað styrkjum úr þróunarsjóði innflytjendamála fyrir árið 2008. Veittir voru styrkir til 19 verkefna, samtals um 9,6 milljónir króna.
Þróunarsjóður innflytjendamála var stofnaður í mars 2007 í þeim tilgangi að efla rannsóknir og þróunarverkefni á sviði málefna innflytjenda. Markmiðið er að auðvelda innflytjendum aðlögun að íslensku samfélagi og gera samfélaginu betur kleift að koma til móts við þá. Úthlutað var úr sjóðnum í fyrsta sinn í janúar 2008 en gert er ráð fyrir að úthlutun fari fram árlega.
Þróunarsjóður innflytjendamála er starfræktur í félags- og tryggingamálaráðuneytinu. Innflytjendaráð fer með stjórn sjóðsins og gerir tillögur til félags- og tryggingamálaráðherra um úthlutanir úr sjóðnum. Að þessu sinni var sérstök áhersla lögð á verkefni og rannsóknir sem lúta að stöðu innflytjenda á vinnumarkaði í ljósi breytts efnahagsástands og verkefni sem lúta að fræðslu gegn fordómum og öðrum aðgerðum til að koma í veg fyrir mismunun eða fordóma vegna uppruna, kynþáttar eða trúarbragða. Alls bárust 49 umsóknir til fjölbreyttra verkefna á þessu sviði sem er til marks um mikinn áhuga og grósku í störfum að innflytjendamálum.
Í fylgiskjali er gerð grein fyrir verkefnunum 19 sem hlutu styrk að þessu sinni.
Verkefnin 19 sem hlutu styrk úr þróunarsjóði innflytjendamála (PDF, 27KB)