Hoppa yfir valmynd
2. janúar 2009 Innviðaráðuneytið

Keflavíkurflugvelli ohf. hleypt af stokkunum

Kristján L. Möller samgönguráðherra hleypti starfsemi Keflavíkurflugvallar ohf. formlega af stað í dag við athöfn í brottfararsal flugstöðvarinnar þegar hann flutti ávarp og afhjúpaði merki félagsins. Viðstaddir voru starfsmenn félaganna sem sameinuð hafa verið.

Keflavíkurflugvöllur ohf. tekur formlega til starfa
Keflavíkurflugvöllur ohf. tekur formlega til starfa. Samgöngu-ráðherra afhjúpaði merki félagsins sem Hvíta húsið hannaði.

Keflavíkurflugvöllur ohf. tók við rekstri Keflavíkurflugvallar og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar um áramótin en félagið var stofnað með lagaheimild 26. júní sl. til að annast rekstur, viðhald og uppbyggingu flugvallarins og flugstöðvarinnar. Félagið annast einnig flugleiðsöguþjónustu og þjónustu við flugrekendur, rekstur verslana með tollfrjálsar vörur og aðra starfsemi sem nauðsynlegt er að sé innan haftasvæðis flugverndar auk þess að sjá um hagnýtingu flugvallarins í þágu öryggis- og varnarmála.

Með stofnun Keflavíkurflugvallar ohf. er stefnt að hagræðingu og skilvirkni í rekstri flugvallarins og flugstöðvarinnar og lagður grundvöllur að nýrri starfsemi og þjónustu á sviði flugs og viðskipta. Samgönguráðherra fer með hlut ríkisins í félaginu en forstjóri er Björn Óli Hauksson rekstrarverkfræðingur.

Samgöngráðherra þakkaði í upphafi ræðu sinnar starfsmönnum og stjórn hins nýja hlutafélags fyrir undirbúning starfseminnar. Hann sagði það ekki hafa verið auðvelt verkefni og ekki orðið auðveldara í breyttum heimi efnahagsmála. Síðan sagði ráðherra meðal annars:

Hægt að nýta tækifærin

,,Hvað boðar nýárs blessuð sól? Þessari spurningu sálmaskáldsins Matthíasar Jochumssonar hefur oftlega verið varpað fram við áramót í heila öld. Prestar vitna til sálmsins í predikunum, leiðarahöfundar í dagblöðum, bloggarar á netinu og ráðherrar í tækifærisræðum.

Og hvað boðar nýárssólin – fyrir utan náttúrunnar jól, eins og sálmaskáldið sagði – og fyrir utan líf og líknarráð. Hvernig svörum við þessari spurningu? Hvað boðar hún fyrir okkur, einstaklinga, fjölskyldur, fyrirtæki, opinber hlutafélög?

Við sem hér erum og berum ábyrgð á rekstri Keflavíkurflugvallar ohf. stöndum frammi fyrir þessari spurningu. Við höfum í höndunum öflugt fyrirtæki. Hér eru hæfir starfsmenn sem hafa í áraraðir sinnt krefjandi verkefnum og veitt góða þjónustu. Því verður haldið áfram og þó að við verðum að þola samdrátt um skeið er ég sannfærður um að aftur birti og að við getum nýtt krafta okkar, tæki og aðstöðuna hér til að þjóna flugi og ferðamönnum um ókomin ár.

Við þurfum að gera áætlanir og það er eðlilegt og sjálfsagt í öllum rekstri. Það er hins vegar ekki auðvelt í dag þegar efnahagslífið er frosið og öll hreyfing með minnsta móti. Farþegum um Keflavíkurflugvöll fækkaði umtalsvert á síðasta ári og sömuleiðis minnkaði umfang póst- og vöruflutninga.

Hvað þýðir það? Það þýðir að tekjurnar minnka þar sem þær eru tengdar fjölda flugvéla, farþega og annars flutnings. Það þýðir að handtökin og verkefnin eru færri sem vinna þarf og það þýðir að endurskipuleggja þarf starfstilhögun.“

Í lokin minntist samgönguráðherra á þá hugmynd sem hann hefur áður varpað fram um að kanna kanna sameiningu Keflavíkurflugvallar ohf. og Flugstoða ohf. ,,Efnahagsástandið knýr okkur til að leita allra leiða til ráðdeildar og sparnaðar. Ein þeirra gæti verið sameining þessara tveggja opinberu hlutafélaga. Við þurfum að kanna rækilega kosti þess og galla,“ sagði ráðherra einnig og sagði í lokin að mörg tækifæri væru framundan þrátt fyrir samdrátt og sagðist sannfærður um að starfsmenn og stjórnin myndu finna þau.

Starfsmenn um 400

Starfsemi Keflavíkurflugvallar ohf. skiptist í sex svið; fjármálasvið, flugvallarsvið, flugleiðsögusvið, flugverndarsvið, viðskiptasvið og rekstrarsvið. Öryggisverðir sem annast vopnaleit og öryggisgæslu í flugstöðinni munu heyra undir hið nýja félag. Réttindi og skyldur starfsmanna flytjast í samræmi við lög um aðilaskipti. Fríhöfnin ehf. er dótturfélag Keflavíkurflugvallar ohf. og sér um rekstur fríhafnarverslana í flugstöðinni. Starfsmenn félaganna eru 400 og áætluð velta á þessu ári er ríflega tíu milljarðar króna.

Stjórn Keflavíkurflugvallar ohf. skipa Jón Gunnarsson, Rannveig Guðmundsdóttir, Sigrún Jónsdóttir, Ellert Eiríksson og Pétur J. Eiríksson.

Kristján L. Möller, Jón Gunnarsson, stjórnarformanns Keflavíkurflugvallar ohf. og Björn Óli Hauksson forstjóri
Kristján L. Möller samgönguráðherra stendur hér á milli Jóns Gunnarssonar, stjórnarformanns Keflavíkurflugvallar ohf. (lengst til vinstri), og Björns Óla Haukssonar forstjóra.      

 Keflavíkurflugvöllur ohf. tekur formlega til starfa.      
Starfsmenn og forráðamenn Keflavíkurflugvallar ohf. voru viðstaddir athöfnina ásamt ýmsum gestum.      

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta