Hoppa yfir valmynd
6. janúar 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Aðgerðir gegn kynbundnu ofbeldi

Ofbeldi í nánum samböndum – Orsakir, afleiðingar, úrræði er heiti nýútkominna fræðslurita fyrir fagstéttir sem félags- og tryggingamálaráðuneytið hefur gefið út að tilstuðlan samráðsnefndar um aðgerðir gegn ofbeldi karla gegn konum í nánum samböndum. Markmið útgáfunnar er að efla fræðslu og þekkingu þeirra sem sinna og vinna með konum sem hafa verið beittar ofbeldi af nákomnum aðilum. Efnt var til kynningar á ritunum á fundi í Iðnó í dag.

Fræðsluritin eru fimm talsins. Eitt þeirra fjallar á almennan hátt um ýmsar staðreyndir varðandi ofbeldi gegn konum í nánum samböndum, rannsóknir sem gerðar hafa verið, birtingarmyndir ofbeldisins og afleiðingar þess. Þetta rit er einkum ætlað til kennslu. Hin ritin fjögur eru skrifuð með það að markmiði að nýtast tilteknum stéttum í starfi. Eitt ritanna er fyrir ljósmæður, annað fyrir aðrar heilbrigðisstéttir, þriðja fyrir starfsfólk félagsþjónustu og fjórða ritið er ætlað lögreglunni.

Höfundur ritanna er dr. Ingólfur V. Gíslason og vann hann efni þeirra í samráði við samráðsnefndina ásamt því að leita í smiðju fjölda sérfræðinga úr mörgum fagstéttum sem best þekkja til þessara mála.

Samráðsnefnd um aðgerðir gegn ofbeldi karla gegn konum í nánum samböndum sem stóð fyrir útgáfu ritanna er skipuð af félags- og tryggingamálaráðherra og hefur starfað frá árinu 2003 að ýmsum verkefnum til að sporna gegn ofbeldi á heimilum, kynferðislegu ofbeldi sem beinist að konum og til að bæta aðbúnað þeirra sem orðið hafa fyrir ofbeldi eða teljast í áhættuhópi hvað þetta varðar. Í nefndinni eiga sæti fulltrúar frá dóms- og kirkjumálaráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti, menntamálaráðuneyti, félags- og tryggingamálaráðuneyti, Jafnréttisstofu og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Ritunum verður dreift til viðkomandi fagstétta á næstu dögum. Þau eru jafnframt aðgengileg á heimasíðu félags- og tryggingamálaráðuneytisins.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta