Yfirlýsing frá ríkisstjórninni vegna lögsóknar á hendur breskum yfirvöldum
Ríkisstjórnin hefur ákveðið að kanna til þrautar möguleika á að leita réttar Íslendinga fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu vegna beitingar breskra stjórnvalda á svonefndum hryðjuverkalögum (Anti Terrorism, Crime and Security Act) frá árinu 2001 gegn Landsbankanum á síðasta ári.
Ríkisstjórnin ítrekar jafnframt fyrri yfirlýsingar um að styðja af alefli við málsókn skilanefndar Kaupþings vegna framgöngu breska Fjármálaeftirlitsins gegn Singer & Friedlander, dótturfyrirtæki Kaupþings, þann 8. október 2008, en þá yfirtók eftirlitið rekstur Singers & Friedlanders með þeim afleiðingum að móðurfyrirtækið komst í greiðsluþrot. Skilanefndin hefur afráðið að höfða, fyrir hönd bankans, mál gegn breskum stjórnvöldum og nýtur því fulls stuðnings ríkisstjórnarinnar í þeirri málsókn. Stuðningurinn er í samræmi við lög frá Alþingi sem samþykkt voru 20. desember en þau heimila fjármálaráðherra að styðja fjárhagslega við slíka málsókn.
Ríkisstjórnin mun einnig styðja við málsókn skilanefndar Landsbankans í hugsanlegum málaferlum gegn breskum stjórnvöldum, en sérstök athygli er vakin á að sú málshöfðun lýtur ekki að öllu leyti sömu tímafrestum og málshöfðun skilanefndar Kaupþings.
Rétt er að vekja á því athygli að ríkisstjórnin hefur fengið álit frá bresku lögmannsstofunni Lovells um hugsanlega málshöfðun íslenska ríkisins gegn breskum stjórnvöldum í þeim tilgangi að láta reyna á lögmæti kyrrsetningar eigna Landsbankans með stjórnvaldsákvörðun þeirra frá 8. október 2008 (Landsbanki Freezing Order) á grundvelli hryðjuverkalaganna. Voru bresku lögmennirnir fengnir til að leggja mat á hvort hægt væri að hnekkja kyrrsetningunni fyrir breskum dómstólum á grundvelli sjónarmiða um ólögmæti og hvort íslenska ríkið gæti höfðað skaðabótamál fyrir breskum dómstólum vegna kyrrsetningarinnar. Lögmennirnir töldu að litlar sem engar líkur væru á því að íslensk stjórnvöld gætu hnekkt kyrrsetningunni fyrir breskum dómstólum. Rökstuddu þeir niðurstöðuna ítarlega með tilliti til breskra lagasjónarmiða og dómafordæma og töldu að lagaákvæðin veittu breskum stjórnvöldum afar rúmar heimildir til þess að beita kyrrsetningarákvæðum. Þá voru þeir þeirrar skoðunar að engar líkur væru á því að íslenska ríkið myndi fá dæmdar skaðabætur fyrir breskum dómstólum vegna kyrrsetningarinnar. Ríkislögmaður og þjóðréttarsérfræðingur utanríkisráðuneytisins voru sammála þessu áliti.
Á grundvelli þessa hefur ríkisstjórnin ákveðið að höfða ekki mál gegn breskum stjórnvöldum fyrir breskum dómstólum á þessu stigi. Eins og fyrr segir mun hún hins vegar kanna aðra möguleika til alþjóðlegrar málsóknar til þrautar og má þar sérstaklega nefna Mannréttindadómstól Evrópu.
Ríkisstjórnin ítrekar jafnframt að hún er eindregið þeirrar skoðunar að framangreindar aðgerðir breskra stjórnvalda hafi verið rangar og óréttmætar og hefur með formlegum hætti óskað eftir því við bresk stjórnvöld að kyrrsetningunni verði aflétt.
Hjálagt fylgir afrit af minnisblad rikislogmanns, dags. 22. desember 2008 á pdf-formi.
Reykjavík 6. janúar 2009