Ný Veðurstofa Íslands tekin til starfa
Ný stofnun, Veðurstofa Íslands, tók til starfa um áramótin. Stofnunin starfar samkvæmt lögum sem voru samþykkt á Alþingi síðastliðið sumar. Viðfangsefni nýrrar stofnunar snúa að eðlisþáttum jarðarinnar, þ.e. lofti, vatni, snjó og jöklum, jörð og hafi. Helsta hlutverk stofnunarinnar er að: afla, varðveita, vinna úr upplýsingum og stunda rannsóknir og að miðla upplýsingum til og þjónusta notendur um þá eðlisþætti jarðar sem varða íslenska hagsmuni og samfélagslegt öryggi gagnvart náttúruvá. Stofnunin mun því sinna afar mikilvægum verkefnum fyrir íslenskt samfélag, bæði fyrir atvinnurekstur í landinu og daglegt líf.
Hjá nýrri stofnun Veðurstofu Íslands starfar öflugur hópur fagmanna og vísindamanna og er starfsmannafjöldi um 120.
Magnús Jónsson, sem verið hefur veðurstofustjóri frá 1994, hefur látið af störfum en við starfi forstjóra Veðurstofu Íslands tók Árni Snorrason, sem áður var forstöðumaður Vatnamælinga, en Vatnamælingar sameinuðust Veðurstofunni um áramót.